Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason kveikti aðeins í mér þegar hann nefndi borgarlínusukkið og allt sem því tengist en ég verð að bíða aðeins með að fara nánar út í það. Það er eitt og annað sem ég þarf að segja um það mál en ég hafði hugsað mér að ræða sérstaklega um landbúnaðarkaflann í fjármálaáætlun og í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Ég hef reyndar mjög oft bent á með hvaða hætti afstaða ríkisstjórnarinnar til landbúnaðar birtist í fjármálaáætlun, alveg frá því hún tók við. Frá fyrstu fjármálaáætlun birtist mjög afgerandi afstaða til landbúnaðar ef maður lítur einfaldlega á tölurnar, því að ár eftir ár hefur fimm ára áætlun gert ráð fyrir því að hinar ýmsu stéttir sem samfélagið, ríkið, þarf á að halda til að veita vöru eða þjónustu — að framlög til þessara stétta til að standa undir kostnaði þeirra og launum muni hækka ár eftir ár. Í öllum tilvikum, held ég mér sé óhætt að segja, hafi jafnan verið gert ráð fyrir stigvaxandi útgjaldaaukningu vegna hærra verðlags að hluta til, vegna kjarabóta o.s.frv., nema í einu tilviki, nema í tilviki landbúnaðar. Þar var þegar í fyrstu áætlun þessarar ríkisstjórnar gert ráð fyrir því að framlög til þessarar greinar, hinnar einu af þeim greinum sem samfélagið reiðir sig á og kaupir þjónustu af, myndu lækka jafnt og þétt ár frá ári. Svo hafa stundum komið upp atvik sem verða til þess að maður bindur vonir við að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi þessarar greinar og séu tilbúin til að leggja eitthvað á sig til að viðhalda henni og helst efla hana eins og lagt er upp með í ótal frumvörpum og tillögum varðandi aðrar greinar. Nýjasta dæmið, það þarf ekki að fjölyrða um það, eins og kemur reyndar fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, þ.e. að það þurfi ekki að hafa mörg orð um ástæður þess að nú sé litið til mikilvægis matvælaframleiðslu og fæðuöryggis.

En hver er raunin, frú forseti? Raunin er sú sama og það sem við höfum séð ár eftir ár hjá þessari ríkisstjórn. Ef við lítum á liðinn landbúnað á árinu 2023–2027 þá hafa framlög til þeirrar greinar ekki aukist hlutfallslega eins mikið og væntanlega flestra annarra en þó er gert ráð fyrir að á næsta ári lækki þau og þar næsta enn meira, árið þar eftir, 2025, enn meira, árið 2026, enn meira og enn meira 2027 — jafnt og þétt, einu sinni sem oftar, lækki stuðningur ríkisins við landbúnað á meðan gert er ráð fyrir auknum stuðningi við meira og minna allt annað þar sem ríkið þarf að kaupa þjónustu og vörur.

Engu að síður leyfir meiri hluti fjárlaganefndar sér að vera nokkuð yfirlýsingaglaður í áliti sínu. Ég held að það sé tilefni til að vitna beint í það álit, undir fyrirsögninni málefnasvið 12 Landbúnaður, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn fagnar vinnu matvælaráðherra að því er snertir aðgerðir og skilgreiningu á fæðuöryggi landsmanna.“ — Hvaða vinnu er hér vísað til, frú forseti? Er það sprettnefndin svokallaða hans Steingríms J. Sigfússonar, sem eftir því sem ég kemst næst hefur ekki enn skilað af sér? — „Verulegar ógnir blasa nú við matvælaframleiðslu og blikur á lofti varðandi þróun matvælaverðs.“ — Þú segir ekki? Þetta vita allir og hafa rætt núna í nokkra mánuði án þess að vart hafi orðið viðbragða ríkisstjórnar. — „Ekki þarf að rekja ástæður þess.“ — Það er rétt. — „Augljóst er að á næstunni minnki framboð matvæla og að hráefnisverð hækki. Líkur eru á að skortur verði viðvarandi næstu misseri. Þessi þróun mun hafa veruleg áhrif á lífskjör almennings sem verja þarf stærri hluta tekna sinna til matarkaupa.“

Allt er þetta rétt, frú forseti, en hvers vegna birtist ekki þessi skilningur, þessi sýn, í stefnunni, í áformum ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna ákveður ríkisstjórnin þvert á móti að halda áfram að hækka gjöld, m.a. á matvæli og alls konar svona grænt eitthvað til viðbótar og aukaálögur á landbúnað, auka kröfur til greinarinnar og matvælaframleiðenda almennt en lækka framlögin. Ef þetta er staðan, ef menn trúa því raunverulega, vita það, hvers vegna eru þá viðbrögðin þessi?

Og svo segir: „Verkefnið nú er ekki síður að verja afkomu framleiðenda og getu þeirra til að framleiða.“ — Hljómar enn vel. — „Oft er talað um framleiðsluvilja og framleiðslugetu. Með skorti og ógnvænlegri hækkun á verði aðfanga er ástand búvöruframleiðslu afar brothætt. Ljóst er að ekki er hægt að velta öllum kostnaðarhækkunum yfir á neytendur.“

Enn er hér er verið að lýsa hlutum sem eru kannski augljósir en þess heldur spyr maður sig: Hvers vegna, í öll þessi ár, hefur ríkisstjórnin ekki brugðist við? Ekki bara það að hún hafi ekki brugðist við því að Miðflokkurinn hefur ítrekað lagt fram heildaráætlun um eflingu matvælaframleiðslu á Íslandi, hvernig megi styrkja stoðir og sækja fram í landbúnaði og matvælaframleiðslu. Það er víðtækasta áætlun um þennan málaflokk sem birst hefur a.m.k. áratugum saman, en ég hef skoðað það, heildaráætlun þar sem allt spilar saman, heildaráætlun sem virkar. Hver hafa örlög þessara tillagna verið? Meiri hlutinn, sem tjáir sig svo með þeim hætti sem ég lýsi hér, hefur látið þetta hverfa hér á þinginu, svæft það í nefnd, eins og kallað er, ár eftir ár.

Áfram segir í áliti meiri hluta fjárlaganefndar:

„Meiri hlutinn minnir á að í fjárlögum fyrir þetta ár voru lagðar til um 750 millj. kr. til að mæta aðfangahækkun á áburði. Meta þarf markvisst hvort og hvernig er hægt að styðja við frumframleiðendur til að halda getu og vilja til framleiðslu. Því er ekki síður beint til matvælaráðherra að nýta aðrar leiðir. Eindregið er lagt til að ástandið verði tekið mjög alvarlega og einskis látið ófreistað til að nýta lög og regluverk í því skyni. Meiri hlutinn telur það ekki eingöngu vandamál bænda og afurðastöðva að takast á við þennan vanda. Vinna þarf á mun breiðari grundvelli til að halda utan um matvælaframleiðslu í landinu, bæði til að efla og bæta fæðuöryggi og verja byggð.“

Ég er ekki frá því að eitthvað af þessum setningum séu bara teknar beint upp úr tillögunni sem við höfum talað hér fyrir ár eftir ár og hefur iðulega verið svæfð og jafnvel stundum gert grín að henni. En nú gerir enginn grín að fæðuöryggi lengur og meiri hluti fjárlaganefndar skrifar með þessum hætti en gerir svo eitthvað allt annað. Styður fjármálaáætlun þar sem eina ferðina enn er gert ráð fyrir því að landbúnaður á Íslandi hafi þá sérstöðu að fá minni og minni stuðning ár eftir ár. Svo eru menn á sama tíma með hástemmdar yfirlýsingar um mikilvægi greinarinnar, hættuna á yfirvofandi og áframhaldandi hækkunum matvælaverðs, mikilvægi fæðuöryggis og svo o.s.frv. En það er ekkert gert í því. Það er vegna þess að allt snýst um umbúðir frekar en innihald hjá þessari ríkisstjórn, allt spurning um yfirlýst áform frekar en raunveruleg áhrif þess sem menn gera.

Það sama á við í landbúnaðarmálunum og í öðrum málaflokkum að ef mönnum er alvara með þessar yfirlýsingar sínar, ef þeir ætla sér raunverulega að ná árangri, þá þurfa aðgerðirnar að endurspegla það. Menn þurfa a.m.k. að vera reiðubúnir til að hverfa af braut viðvarandi samdráttar í stuðningi við landbúnað á Íslandi. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að aðstæður kalli á það, eins og meiri hlutinn í nefndinni segir en framkvæmir reyndar ekki í samræmi við það.