Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég sagði að þetta væri alveg ágætisframtíðarsýn og allt svoleiðis, ég var mjög skýr með það. Ég er að segja að það er algerlega innihaldslaust ef við vitum ekki hvað það mun kosta og við heyrum að það mun ekki allt verða fjármagnað, það náðist ekki allt inni í fjármálaáætlun sem er að fara að koma fram. Þá vil ég vita hvað af þessu hérna er að óþörfu í rauninni, af því að það mun ekkert verða gert. Mér finnst það mjög eðlileg spurning þegar ég heyri svona af því að það eru ákveðnar væntingar sem eru gefnar með því að setja þetta fram, væntingar um hvað muni vera gert. En svo er bara sagt: Við munum ekki fjármagna þetta, þetta er ekki fullfjármagnað, er ekki verðtryggt eins og samgönguáætlun er, sem er fullfjármögnuð á fyrsta ári, svo bara gleymist að verðbæta hana og aðgerðir falla niður á milli ára o.s.frv., þrátt fyrir og kannski aðallega út af því að það vantar ábatagreiningu. Hún segir okkur hvaða ábata við erum að missa af með því að láta verkefnin falla niður.