154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[17:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. „Déjà vu.“ Það er ekki íslenskt orð og kannski verður forseti að ávíta mig, en þetta er engu að síður orðið sem lýsir upplifun minni þegar við erum stödd hérna í þessum sal tveimur árum eftir að Íslandsbankamálið kom upp og erum aftur í alvörunni að eiga samtal um það hvort fjármála- og efnahagsráðherra beri raunverulega ábyrgð á því að tryggja að farið sé að lögum við meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ætla Sjálfstæðismenn í alvörunni að taka annan svona armslengdarsnúning hérna á Alþingi? Að halda því fram eins og trúðar að Bankasýslan eigi bara að vera á sjálfstýringu og ráðherra megi ekki beita þeim lagaheimildum sem hún sannarlega hefur til að tryggja að eigendastefnu ríkisins sé fylgt? Þetta er farsi og kannski sérstaklega í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis er nýbúinn að tæta í sig sams konar málsvörn Sjálfstæðisflokksins í Íslandsbankamálinu, gefa út álit þar sem er áréttað sérstaklega að Bankasýsla ríkisins er ekki sjálfstætt stjórnvald og yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur ráðherra ná sannarlega til Bankasýslunnar. Og það er rangt hjá hv. þm. Hildi Sverrisdóttur að hér sé einhver að kalla eftir því að ráðherra fari að hræra í og skipta sér með beinum hætti af stjórnendum Landsbankans. Það færi auðvitað í blóra við armslengdarregluna sem hér er talað um.

Það sem við í Samfylkingunni bendum hins vegar á er að ráðherra hefur skýra heimild samkvæmt lögum um Bankasýslu ríkisins, í 3. mgr. 2. gr., til að beina tilmælum til stofnunarinnar um tiltekið mál. Núna vitum við ekki bara að hún beitti ekki þessari heimild heldur hafði hún frétt af og tjáð sig um fyrirhuguð (Forseti hringir.) kaup en kaus engu að síður að eiga engin samskipti, hún viðurkenndi það hérna áðan, við Bankasýslu ríkisins um málið. (Forseti hringir.) Hún spurði einskis, aflaði engra upplýsinga frá stjórnvöldum um stjórnarmálefni (Forseti hringir.) sem hún ber ábyrgð á sem vörslumaður ríkiseigna.