151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sko, ég skil þann hluta. Það sem ég skil ekki er: Hvernig er hægt að búa til aðlögunarferli af nokkru tagi án þess að það valdi þeim vanda sem hv. þingmaður óttast? Því að þetta er aðlögunartæki. Þetta er til þess að hjálpa fólki að komast inn í samfélagið og t.d. finna sér vinnu við hæfi, til að borga skatta og geta lært íslensku til að komast inn í samfélagið og læra á kerfið til að þekkja réttindi sín og skyldur. Ef þetta frumvarp má ekki verða að lögum vegna þess að þá verði það of tælandi fyrir hælisleitendur, hvað eigum við þá að gera til þess að hjálpa fólki sem fær hæli hérna, þessum 631 sem við samþykktum í fyrra? Hvað eigum við að gera til þess að hjálpa því fólki að aðlagast íslensku samfélagi, læra íslensku og komast í vinnu og eiga gott félagslíf og vera landi og þjóð til heilla? Hvað eigum við að gera ef ekki þetta?