Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir sín svör. Ég er pínulítið hissa á svörunum vegna þess að nú er ég með hérna fyrir framan mig bréf sem mér skilst að Fagfélag sálfræðinga í heilsugæslu hafi einmitt skrifað hæstv. ráðherra fyrir u.þ.b. fimm vikum síðan þar sem stöðunni er lýst sérstaklega og fjallar um það að í raun hafi enginn tekið við þessum einna mikilvægustu verkefnum fagstjóra eftir að staðan var lögð niður. Nú sinni enginn verkefnum eins og að tryggja handleiðslu til sálfræðinga, móttöku nýrra sálfræðinga og innleiðingu þeirra í verkferla þjónustunnar, að samræma verklag, halda utan um árangursmælingar, samræma skráningar og margt fleira. Að þessu leyti hafi fjarvera fagstjóra síðastliðið ár komið verulega niður á samþættingu þjónustunnar. Það er tiltölulega stutt síðan, að mér skilst, að ráðherra barst þetta bréf. Ég vona að það sé ekki þannig að það þurfi að básúna allt í fjölmiðlum einhvern veginn til þess að brugðist sé við athugasemdum sem eru settar fram og beint til ráðherra. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil kannski fá að spyrja hæstv. ráðherra aftur hvort honum sé ekki kunnugt um þessar athugasemdir, (Forseti hringir.) hvort hann hafi brugðist við þeim með einhverjum hætti og ef ekki, hvort hann hyggist gera það.