154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þarna komum við aftur að prinsippinu. Um banka í ríkiseigu gilda önnur lögmál en banka á einkamarkaði og þetta er einfaldlega áminning um þennan eðlismun. Ég var ekki að beita neinum innihaldslausum hótunum. Ég sagði sérstaklega að þetta myndi ekki fara í gegn með mínu samþykki. Þarf hluthafafund eða þarf ekki hluthafafund? Nú, ef það þarf hluthafafund þá er hægt að koma vilja eigandans til skila. Ef það þarf ekki, er tilboðið þá skuldbindandi eða er það það ekki? Eru einhverjar heimildir eða leiðir til að koma í veg fyrir að þessi viðskipti eigi sér stað eða telur hv. þingmaður að eigandinn eigi yfir höfuð ekki að hafa neina skoðun á því hvort þessi viðskipti fari í gegn eða ekki? Á meðan málið er í þessu ferli, þar sem við bíðum upplýsinga frá bankaráðinu, þá verðum við að gefa þeim þann tíma sem þau fá til þess að svara því með hvaða hætti, ef yfirhöfuð, hægt er að koma í veg fyrir að viðskiptin eigi sér stað. Þess vegna orðaði ég (Forseti hringir.) þessa yfirlýsingu með þeim hætti sem hv. þingmaður vitnar hér til og ég gerði reyndar sjálf í mínu fyrra andsvari.