131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:57]

Katrín Fjeldsted (S):

Frú forseti. Umræðunni sem hér fer fram er rétt að fagna í ljósi þess að geðsjúkir voru lengi hulin stærð í þjóðfélaginu. Segja má að þeir, ásamt öðrum fötluðum, hafi verið meðhöndlaðir eins og óhreinu börnin hennar Evu. Jákvæð umræða í dagblöðum, ekki síst af hálfu þeirra sem sjálfir hafa veikst, er sannarlega af hinu góða. Fjölmargir aðilar, þar á meðal Geðhjálp, hafa lagt mikið af mörkum í málefnum geðsjúkra.

En heilbrigðisþjónustan hefur einnig þekkt sinn vitjunartíma. Með samstarfi er hægt að lyfta grettistaki. Í Reykjavík hefur þjónusta við geðfatlaða utan sjúkrahúsa markvisst verið efld. Geðteymi er tengt heimahjúkrun í Reykjavík og starfa þar tveir hjúkrunarfræðingar og tveir sjúkraliðar.

Í ágúst á síðasta ári var ráðinn til heilsugæslunnar í Reykjavík iðjuþjálfi sem fylgir geðsjúkum eftir þegar út í þjóðfélagið er komið. Hann vinnur að því að mynda tengslanet við aðstandendur og heldur vikulega hópfundi, m.a. með hópi sem nefnist Hugarafl. Á þeim 14 mánuðum sem liðnir eru hafa vel á annað hundrað einstaklingar notið þjónustu þessa eina iðjuþjálfa. Þörfin er mikil svo að við blasir að halda þurfi áfram á sömu braut.

Frá og með 1. desember næstkomandi fer af stað tilraunaverkefni við Heilsugæsluna í Grafarvogi. Um er að ræða teymisvinnu sem lýtur að börnum og unglingum. Ráðnir hafa verið sálfræðingur, iðjuþjálfi og félagsráðgjafi. Þjónustan verður hverfisbundin og hún er fjármögnuð af heilbrigðisráðuneyti. Brýnt er að skipuleggja teymisvinnu milli geðdeilda og heilsugæslu þannig að fækka megi komum sjúklinga á spítala. Heilsugæslan hefur staðið að slíku samstarfi við fleiri aðila, svo sem í mæðravernd og í þjónustu við aldraða heilabilaða einstaklinga, svo módelið er fyrir hendi. Vonandi er sá tími liðinn að geðfatlaðir verði útundan í þjóðfélaginu en þó eru veikindi þeirra oft þannig að þeir leita ekki endilega eftir hjálp og ráðþrota aðstandendur vita ekki alltaf hvert þeir geta leitað. Í stað þess að gengið sé milli Pontíusar og Pílatusar þarf að einfalda stýrikerfið. Ég bið hæstv. heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar.