132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:36]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða sem hér fer fram. Þessa þingsályktunartillögu, sem sett er fram af hófstillingu og sanngirni, ætti að vera hægt að samþykkja hér á Alþingi, hver sem viðhorf manna til jarðgangagerðar eru. En umræðan um jarðgangagerð hefur kannski farið svolítið úrskeiðis á síðustu missirum af því að oft er, kannski sérstaklega meðal margra á höfuðborgarsvæðinu, talað um jarðgangagerð sem einhvers konar óþarfa útgjöld og byggðabruðl þar sem slíkt standi aldrei undir sér, engin raunveruleg þörf sé á jarðgöngum og þetta sé frekar dæmi um mikil ítök einstakra landsbyggðarþingmanna á þingflokka sína. Umræðan um jarðgangagerð og láglendisvegi eins og hér kveður á um hefur því farið mjög úr leið en hún er mjög brýn og mikilvæg.

Í tillögunni eru jarðgangakostir taldir upp og þar er t.d. lagt til að í þessi verkefni verði farið á næstu tveimur áratugum. Hv. 1. flutningsmaður nefndi að hver kílómetri kostaði sirka 500 milljónir, kannski eitthvað minna, ætli það hafi ekki farið eitthvað undir það t.d. fyrir austan við Almannaskarðsgöngin. Það var mjög tilkomumikið að verða vitni að því þegar samgönguráðherra sprengdi þar síðasta haftið í fyrra, þetta eru merkileg göng sem gjörbreyta leiðinni austur fyrir íbúa Hornafjarðar og að sjálfsögðu íbúana fyrir austan sem fara suður.

Einstaka framkvæmdir sem hér eru taldar upp geta því gjörbreytt byggðunum og gjörbreytt því hvort byggð eigi sér einhverja lífsvon eða ekki. Þess vegna er það mjög mikilvægt og sanngirnismál bæði fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu að gerð verði gagnger úttekt á kostunum sem fyrir liggja, þörfinni, hagkvæmnismatinu og fleiru. En það er hægt að reikna svo margt inn í þegar rætt er um hagkvæmni við gerð ýmiss konar samgöngumannvirkja, jarðganga, tvöföldunar vega og annað af því að það sparast svo fjöldamargt. Hvert alvarlegt bílslys kostar samfélagið ótrúlega fjármuni, tölur sem ég treysti mér ekki til að fara með af því að ég er ekki með þær alveg handbærar. En það eru ótrúlegir fjármunir sem hvert alvarlegt slys kostar samfélagið með svo margvíslegum hætti. Það er að sjálfsögðu tilfinnanlegt tjón fyrir fjölda manns í hvert sinn sem alvarlegt bílslys á sér stað, fyrir utan beint tjón á eignum. Síðan má einnig líta á hverju það skilar byggðunum og samfélaginu aftur, eða hagvexti í landinu, að eitthvert svæði taki við sér og fari að framleiða á ný, sem skiptir öllu máli því þannig geta byggðir öðlast nýtt líf. Það verður aldrei um raunverulegan uppgang ýmissa jaðarbyggða að ræða, eins og oft er talað um núna, eða landsbyggðarinnar lengst fyrir norðvestan og norðaustan nema til komi mjög umfangsmiklar samgöngubætur eins og þær sem verið er að tala um hérna, burtséð frá hvaða viðhorf menn hafa til þess.

En svona aðeins til að rétta umræðuna af og kannski áherslur í vegagerð er Sundabraut náttúrlega á dagskrá, en það er mjög mikilvæg samgönguframkvæmd og samgöngufjárfesting fyrir samfélagið allt, bæði fyrir þá sem búa úti á landi eða hér á suðausturhorninu af því að allt tengist þetta nú með einum eða öðrum hætti.

Hérna er Hellisheiðin aðeins nefnd, sem er örugglega langfjölfarnasti fjallvegur á Íslandi. Meðaldagsumferð um hana er nú um 700 þúsund bílar en umferð um veginn hefur aukist um 70% á áratug og það þykir gríðarleg umferðaraukning. En ef marka má umræðuna þá virðist ekki þykja skynsamlegt að farið verði í að bora jarðgöng undir Hellisheiði, það verði seint eða aldrei gert, þar verði aðrar samgöngubætur að koma til. Hérna segir að unnið sé að verulegum samgöngubótum sem væntanlega reynist vel. Vissulega er verið að bæta leiðina austur fyrir fjall nú þegar með mjög ágætum hætti sums staðar en umdeilanlegum annars staðar. Stóra áfanga á þeirri leið, sérstaklega Hellisheiðina sjálfa og brekkurnar upp hana og niður þarf að sjálfsögðu að tvöfalda þannig að skilið sé algjörlega á milli akreina. Það er ekki nóg að gera það með mjóum víraleiðara eins og verið er að gera núna á öðrum hlutum leiðarinnar þar sem örmjó braut liggur þeim megin sem vegurinn er einfaldur, mjög undarleg framkvæmd að öllu leyti. Menn hljóta að skoða mjög vandlega hvernig er staðið að þessu þar sem vegaxlir virðast hverfa inn í stæði sem fer undir leiðarann, en ákveðið var eftir að framkvæmdin hófst að skilja á milli akreina með víraleiðara. Það er aldrei ávísun á mikla gæfu þegar svo handahófslega er staðið að verki. En það tengist því vissulega hversu fjölfarinn vegurinn er hve hættulegur hann er. Þar getur líka brostið á með alveg ótrúlegum veðravítum og oft hefur legið við mjög alvarlegum og mannskæðum slysum þó að oft hafi sloppið, kannski út af viðbragðsflýti og röskleika björgunarsveita og lögreglu fyrir neðan heiðina, þannig að það þarf að skoða sérstaklega. Þegar ég tók það upp við samgönguráðherra hér á Alþingi í fyrra hver kostnaðurinn væri við að tvöfalda leiðina austur fyrir fjall frá Rauðavatni að Selfossi kom fram að heildarkostnaðurinn við það væri trúlega í kringum sjö milljarðar, sem eru að sjálfsögðu mjög miklir peningar. En við þreföldun eða þrígreiningu væri kostnaðurinn líklega tveir til þrír milljarðar og menn lögðu áherslu á að farið það yrði í þær framkvæmdir þar sem það þótti raunhæfara að berjast fyrir því, sem er bæði skiljanlegt og skynsamlegt.

Á stórum hluta leiðarinnar austur fyrir fjall og sérstaklega yfir sjálfa heiðina þurfa endurbætur að ganga miklu hraðar og miklu lengra. Nú við endurskoðun samgönguáætlunar hljóta lok á endurbótum á Suðurlandsvegi að fara inn á áætlun þannig að við sjáum fyrir endann á þeim framkvæmdum þar sem lagt er fyrir að vegurinn yfir Hellisheiði verði tvöfaldaður og helst lýstur. Það eru reyndar deildar meiningar um kosti þess að lýsa fjallvegi en ég er alveg sannfærður um að það mundi margborga sig að lýsa veginn yfir Hellisheiði vegna umferðaröryggis. En þar verður ábyggilega aldrei láglendisvegur og því þarf að grípa til annarra ráða eins og að breikka veginn. Svo hafa menn rætt um ýmsa aðra kosti, t.d. að leggja snjóbræðslu sem ég hef heyrt að geti reynst erfitt yfir fjallveg sem getur verið jafnsnjóþungur og erfiður og heiðin.

Mikilvægast er að tvöfalda brautina og lýsa og svo er hitt sem stundum hefur verið nefnt en ekki farið mikið inn í umræðuna, en það er hvernig það kæmi út og hver væri kostnaður við að byggja jafnvel yfir einhverja hluta, t.d. brekkurnar upp á heiðina sitt hvorum megin, þ.e. Kambana og Hveradalsbrekkuna. Ef þessi tillaga færi inn í nefnd væri fróðlegt að bæta slíkum hugmyndum inn í úttektina, t.d. hver kostnaður væri við slíkar umbætur á einhverjum hlutum leiðarinnar. Tillagan er athyglisverð og kemur af stað merkilegri umræðu hér í þinginu.