133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:13]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt afar athyglisvert í ræðu hv. þingmanns og eðlilegt að ég, sem sveitungi hans nú til nokkurra ára, hafi tekið eftir ýmsu sem þar kom fram. Glöggt er gests augað, eins og við vitum. Ég tók eftir því að hv. þingmaður hafði lært alla þá punkta á ágætri leið þar sem við missum samband í símum.

En af því að ég veit að hv. þingmaður fylgist mjög vel með í umhverfi sínu hefði ég viljað leggja fyrir hann eina spurningu, til þess að hv. þingmenn, sem hér eru viðstaddir, geti áttað sig á því hvert er brýnasta verkefni opinberra aðila í því sveitarfélagi sem við, hv. þingmaður og ég, búum í. Ég hefði viljað heyra hvort hv. þingmaður er ekki sammála mér um það að ný jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar séu það stóra verkefni sem bíður opinberra aðila nú sem allra fyrst.

Þegar fólk flytur á stað eins og Neskaupstað, eins og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson gerði fyrir um þremur árum, sér það jafnvel betur en þeir sem búið hafa þar um nokkurt skeið hvað er mest aðkallandi að gera og hvað háir samfélaginu hvað mest. Ég tala nú ekki um hvað það er sem háir þeim byggðakjarna í Fjarðabyggð vegna hinna miklu framkvæmda sem nú eru á Reyðarfirði. Ég vona að ég fái það staðfest hér á eftir að hv. þingmaður sé sammála mér í því að þar er jarðgangagerð brýnust.