151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

44. mál
[14:03]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir góða ræðu og fyrir þátttöku og stuðning við þessa ágætu tillögu sem á auðvitað uppruna sinn að rekja til flokks hv þingmanns.

Af því að hún greip þetta með Suður-Kóreu, Japan og Taívan þá er ákveðin ástæða fyrir því að ég vildi ekki endilega festa mig við þeirra mælikvarða. Þannig er að þau ríki komu, ef við tökum Suður-Kóreu sérstaklega, út úr seinni heimsstyrjöld á svipuðu stigi og við hvað varðar tækniþróun og samfélagsgerð, það var rosalega lítil tækni miðað við allt. En þau lögðu rosalega áherslu á iðnaðaruppbyggingu og fóru í raun í mjög markvissa stýringu á framleiðslugetu sinni en voru ekki að handstýra hagkerfinu pólitískt enda hefur það aldrei virkað neitt rosalega vel. Í staðinn bjuggu þau til efnahagslega hvata sem miðuðu að því að lengja virðiskeðjur. Það sem mér finnst gagnrýnisvert er að aðferðin sem þau notuðu var að segja hreinlega: Útflutningstekjur er það sem ræður. Ef fyrirtæki koma með meira af útflutningstekjum er horft meira til þarfa þeirra fyrirtækja í allri reglugerð. Ég held við ættum að horfa til fleiri þátta en bara útflutningstekna. Auðvitað gera þau það líka en það að blindast af þessum eina þætti gæti verið til trafala, sérstaklega þegar við horfum til annarra svæða sem hafa náð góðum árangri í því að búa til sterkt innra hagkerfi.

Ég held að það sé fullt af tækifærum eins og hv. þingmaður nefndi og ég er sannarlega spenntur fyrir tillögunni um þang og þara, við höfum talað svolítið mikið um það saman. Ég held að við ættum að horfa til allra leiða en ég vildi nefna þetta varðandi mælikvarðana.