152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[18:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það gæti verið fróðlegt að bera saman tvö frumvörp sem við höfum til umfjöllunar hér í dag sem eru hliðstæð hvað efni varðar en lýsa ólíkum vinnubrögðum að ýmsu leyti, annars vegar frumvarp innanríkisráðherra um framlengingu bráðabirgðaheimilda í ýmsum lögum og hins vegar frumvarp innviðaráðherra um breytingu á lögum um loftferðir sem snýst líka um framlengingu gildistíma. Það eru nefnilega tvö atriði sem eru áberandi ólík á milli þessara mála. Í fyrsta lagi samráðið. Það frumvarp sem við fjöllum hér um var sett í samráðsgátt stjórnvalda 12. nóvember og var þar í tíu daga. Þetta er nefnilega ekkert mál. Hæstv. innviðaráðherra gat ekki gert slíkt hið sama með sitt frumvarp sem við ræddum hér fyrr í dag. Það er ótrúlega lélegt. Ég vil þakka hæstv. ráðherra Jóni Gunnarssyni fyrir að sýna okkur svart á hvítu hvernig hægt er að gera þessa hluti betur en hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jónsson gerir.

Síðan er hitt atriðið sem hallar á hinn veginn og það er varðandi þann tímaramma sem lagt er upp með. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir viðheldur nefnilega þeirri, vil ég segja, hefð sem skapaðist hér á fyrstu dögum Covid-viðbragða þingsins að hafa úrræði sem við værum að lögfesta á handahlaupum vel og þröngt römmuð inn í tíma. Þetta skipti mjög miklu máli í upphafi faraldursins þegar umræður í þingsal voru takmarkaðri en þær eru í dag og nefndastörf voru í óttalegu skötulíki miðað við það sem best gerist og meðan samfélagið var á þeim stað að ég held að fólki hafi bara gengið illa að halda fókus á að skila til okkar umsögnum. Það var mjög mikið sem gekk á þessa fyrstu mánuði Covid-faraldursins og það að skila inn umsögn við frumvarp hjá Alþingi var kannski ekki eitt af því sem skoraði hæst á lista hjá fólki í fjarvinnu heiman frá sér með börnin heima sem ekki gátu sótt skóla og allt það. En til að bregðast við þeim halla sem varð á þinglegri meðferð mála fórum við að venja okkur á að setja heimildir í lög til skamms tíma; hálft ár, heilt ár, ekki meira en það. Þeirri hefð viðheldur innviðaráðherra í frumvarpi sínu um framlengingu gildistíma í lögum um loftferðir, leggur til að ákvæðið sé framlengt um hálft ár, til 1. júlí 2022. En hæstv. innanríkisráðherra gengur mjög langt varðandi tímarammann og leggur til framlengingu til 2024. Af umræðunum hér í dag held ég að það megi bara þykja ljóst að þetta er of langur tími. Auðvitað eigum við að skoða hvort festa megi heimildir til fjarfunda hjá hinum ýmsu stjórnsýslueiningum varanlega í lög. Þá skulum við gera það með almennilegu frumvarpi sem fær almennilega meðferð í ráðuneyti og hjá þingi en ekki einhverju sem er klárað hér korter í jól.

Mig langar þess vegna að beina því til virðulegrar allsherjar- og menntamálanefndar að hún breyti þessu frumvarpi þannig að það gæti samræmis við þá hefð sem skapaðist hérna, þá hefð sem innviðaráðherra virðir, að við veitum svona heimildir aðeins til skamms tíma í senn. Ég myndi leggja til að nefndin skoðaði það að framlengja bráðabirgðaheimildir innanríkisráðherra til miðs árs 2022, sem sagt um hálft ár, og að ráðuneytið noti þann tíma til að fara í þá vinnu sem þarf til að skoða að festa þessar heimildir varanlega í sessi. Það er bara hægt að koma með það frumvarp til okkar hér í vor, það er hægt að senda það til umsagnar með tveggja til þriggja vikna umsagnarfresti frá þinginu eins og við viljum gera í öllum málum sem á að vinna vel en getum ekki í málum sem koma svona skömmu fyrir áramót. Það væri töluvert betri bragur á því og myndi leysa okkur undan óþarfa deilum um það að framlenging til þriggja ára sé ekkert til bráðabirgða heldur varanleg, eitthvað sem við getum hæglega losað okkur við og gert hlutina töluvert betur í leiðinni.