131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[14:01]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við notum það tækifæri sem alþjóðageðheilbrigðisdagurinn gefur okkur til þess að ræða málefni geðsjúkra á hinu hv. Alþingi.

Níunda þessa mánaðar varð félagið Geðhjálp 25 ára og ég tel að það starf sem félagið hefur sinnt hafi hjálpað okkur við að opna augu almennings gagnvart þessum hópi og skilað góðu starfi.

Í umræðunni hér hefur komið fram að við höfum staðið okkur mjög illa og verið til skammar. Þetta er auðvitað alrangt. Það hefur margt mjög gott verið gert í málefnum geðsjúkra. Hér er búið að benda á að þjónustan sé góð, hér eru fleiri sjúkrarúm fyrir geðsjúka en annars staðar. Við erum með fleiri lækna á hvern íbúa hér á landi en annars staðar og búið er að auka líka framlög til lyfja handa þessum hópi. Útgjöld hafa því vaxið og gæði þjónustunnar hafa þar af leiðandi aukist. Fordómar í garð fólks með geðraskanir hafa einnig minnkað mjög hin seinni ár og er það vel.

Hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir það í ræðu sinni hvernig geðheilbrigðisþjónustan hefur verið aukin og ég vil sérstaklega fagna því hve ráðherra og ráðuneytið hefur lagt mikla áherslu á forvarnir til handa þessum hópi, þ.e. að efla grunnþjónustuna og efla heilsugæsluna. Mér finnst það mjög eftirtektarvert og ég vil sérstaklega tengja það við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, en hún beinir nú í vaxandi mæli sjónum að forvörnum gegn geðrænum kvillum og bendir á þá staðreynd að hlutfall sjúkdóma af geðrænum toga fer vaxandi með tilliti til heildarsjúkdómabyrði, þ.e. þetta er vaxandi vandamál í nútímasamfélögum og þess vegna ber okkur að stunda forvarnir.

Það er því mjög eðlilegt að menn beini sjónum að því sem er yfirskrift þessa dags, þ.e. að tengja hreyfingu við andlegt heilbrigði, en það er mjög mikilvægt að hreyfa sig til þess að bæta andlegt ástand sitt og endurskoða lífsviðhorf sitt.