154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir þessa umræðu og raunverulega hvatningu til að fylgja því vel eftir hér að tryggja öryggi þeirra sem þurfa á lyfjum að halda. Ég tek þá hvatningu mjög alvarlega. Það tengist kannski fyrra andsvari líka hvað við erum að ræða hér. Hér er í stóra samhenginu um mikla almannahagsmuni að ræða. Við erum með lítinn, viðkvæman markað og ekki kannski þann eftirsóknarverðasta þegar kemur að fjölda og við erum þá að horfa á lyfjafyrirtæki og framleiðendur þannig að við finnum allt of oft fyrir því þegar skortur verður á lyfjum í heiminum. Þess vegna er að einhverju marki mikilvægt að við höfum rauntímaupplýsingar eins og lagt er upp með hér. Á móti skulum við alveg viðurkenna það með opin augu hér að þetta er auðvitað að einhverju leyti íþyngjandi fyrir þá sem halda slíkar birgðir og eru hér að flytja inn lyf og þurfa að veita Lyfjastofnun aðgang að birgðakerfunum sínum til að markmið frumvarpsins náist. Og það er auðvitað það jafnvægi sem kannski kom fram í fyrra andsvari og þarf kannski líka að skoðast í þessu stóra samhengi almannahagsmuna og væntanlega mun nefndin fara gaumgæfilega yfir það. Þetta er mikilvægt mál. Hingað til hefur okkur tekist með góðri samvinnu að tryggja oft á tíðum, þó að birgðir séu naumar, að fólk fái lyfin sín. Það eru þó því miður dæmi um að það tefjist. Það þurfum við að taka alvarlega.