144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi lagastoðina sem ég er að tala um gæti hv. þingmaður tekið frumvarp frá 2012 og flett upp á 9. gr., ef ég man rétt. Þar var einfaldlega sett inn ákvæði, sem hefði rutt út núgildandi ákvæðum í lögum um stjórn fiskveiða og í lögum um veiðar utan landhelgi, sem kveður á um að á grundvelli aflareynslu í svo og svo langan tíma og þrjú bestu ár af sex og hvað það er eigi svo að hlutdeildarsetja tegundir.

Ég hafði ekki á þeim tíma sem ég var í þeim málum áhyggjur af makrílnum, að það gæti komið til álita að ríkið væri komið í ónáð með að hafa ekki hlutdeildarsett hann. Við töldum alltaf, a.m.k. þeir lögfræðingar sem ég skoðaði þetta með, að staða ríkisins væri mjög sterk á meðan ekki hefði samist um stofninn og í ljósi stuttrar veiðireynslusögu og í ljósi þess að fiskveiðistjórninni sjálfri hafði verið margbreytt. Það var enginn sá fyrirsjáanleiki, það voru engar þær lögmætu væntingar sem menn gátu hengt sig á. Vissulega er lagabókstafurinn eins og hann er og mætti vera betri. Það voru reyndar einhverjar tvær aðrar tegundir sem var verið að biðja um kvótasetningu á og er nú búið að setja í kvóta og þar held ég að menn hafi haft meira til síns máls, ríkið hafði fáar góðar málefnalegar ástæður fyrir að færa þær ekki inn í kerfið, hvort það var gulldepla eða hvað það var man ég ekki.

Svona lög búa til ríkt svigrúm fyrir stjórnvöld til þess að stýra veiðum tímabundið við sérstakar aðstæður þegar ný tegund kemur inn í veiðarnar eða er að auka gengd sína hingað og horfa þá til allra almennra sjónarmiða í lögunum, auðvitað um að hámarka verðmætin, um að skapa atvinnu, um að dreifa þessu réttlátlega innan greinarinnar o.s.frv.

Þá kem ég að seinni spurningunni um samþjöppun. Jú, ég óttast að hún verði mikil. Ég hugsa að margir í ísfiskveiði og jafnvel frystitogarahópnum, sem hafa verið í þessum veiðum undanfarið, freistist til þess að selja þetta, skipta kannski á því fyrir aðrar tegundir, og einhverjir kalla það hagræðingu, innan smábátahópsins líka, að þetta færist saman á færri og stærri og betur útbúna aðila. (Forseti hringir.) Og þá gerist annað, þróunarmöguleikarnir í landvinnslu tapast eins og þeir hafa verið.