145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ítarlegu skýrslu sem hann leggur hér fyrir þingið og ætla að reyna að fara yfir hana í nokkrum orðum. Ef ég minnist fyrst á skýrsluna sjálfa og framsetningu hennar vil ég hrósa ráðherranum og starfsmönnum hans fyrir að setja upp þennan nýja kafla í lok hvers kafla um markmið og starfið fram undan. Það er vissulega til bóta og sýnir að fólk horfir fram á við en ekki bara til baka þótt nauðsynlegt sé að gera það líka.

Ég vil fagna því að uppbygging utanríkisþjónustunnar er hafin á ný, ef svo má segja. Utanríkisþjónustan er að mínu viti einn mikilvægasti þáttur stjórnsýslunnar. Hún varð fyrir mjög miklum niðurskurði eftir efnahagsófarirnar og bankahrunið hér á landi. Ég fagna því að uppbygging hennar er hafin á ný. Þó að ég hefði hugsanlega haft aðrar áherslur en hæstv. ráðherra í því hvernig það var gert ber samt sem áður að fagna því að sú uppbygging er hafin.

Ég vil líka, eins og ég held ég hafi alltaf gert frá því ég kom hér á þing og fór að taka þátt í þessari umræðu, nefna sérstaklega þann þátt í störfum utanríkisþjónustunnar sem er einna mest áríðandi en minnst er talað um og það er borgaraþjónustan. Það er starf sem ekki er mikið kastljós á en þar er gífurlega mikilvægt starf unnið fyrir fólk sem býr erlendis, fyrir fólk sem er á ferð erlendis, fyrir fólk sem lendir í ógöngum, ef svo má segja, og þær geta verið af litlu tilefni og ekki alvarlegar en samt skipt fólk miklu máli. Þar vil ég nefna neyðarþjónustu sem nú er komin upp svo að fólk getur hvenær sem er sent spurningar og sagst vera í vandræðum; og það fær svör, jafnvel á jóladag, um það hef ég persónulega vitneskju. Ég vil hrósa því fólki sem starfar við borgaraþjónustuna. Því verður ekki of oft hrósað.

Mig langar líka í þessari andrá að nefna Evrópusamstarfið sem er gífurlega mikilvægt. Enn einu sinni eru heitstrengingar um að setja kraft í EES-samstarfið og koma fyrr með gerðir inn í íslenskan rétt og íslensk lög og fylgja þeim skuldbindingum sem við höfum á þeim vettvangi. Ég vona sannarlega að það takist. Á sama tíma get ég ekki látið hjá líða að undrast það að í mikilli vinnu sem ég hef verið í undanfarið með fólki úr öllum þingflokkum, vinnu við ný ákvæði í stjórnarskrána, þegar við héldum að við værum á síðustu metrunum í því samstarfi, kom fram að ekki var vilji til þess að leggja til að nýtt ákvæði kæmi inn í stjórnarskrá um alþjóðasamvinnu. Ég verð að geta þess hér, fyrst ég er að ræða þessa skýrslu, að það er algerlega óskiljanlegt. Okkur vantar stoð í stjórnarskrána undir þessa alþjóðasamvinnu, ekki síst það að reka EES-samninginn. Við þingmenn lendum í því með vissu millibili að einhverjar gerðir koma þar inn þar sem verið er að tala um framsal ríkisvalds, jafnvel bara lágar sektargreiðslur til ESA, og þá stöndum við frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til þess hvort við séum að brjóta stjórnarskrána eða ekki. Það er mjög erfitt mál, sérstaklega þar sem fyrsta verk okkar þingmanna hér á þingi er að undirrita heit að stjórnarskránni. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því að ekki sé vilji til að vera með styrka stoð í stjórnarskránni undir þessa mikilvægu starfsemi, þ.e. hvers konar alþjóðasamvinnu, þó að sú samvinna gangi ekki langt. Það er engin stoð fyrir því í stjórnarskránni.

Svo að ég komi aftur að skýrslunni segir ráðherrann hér frá þjóðaröryggisstefnunni. Í gær eða í morgun var dreift nefndaráliti vegna þjóðaröryggisstefnunnar þannig að ég á von á að það komi til umræðu á næstu dögum, ef ekki á morgun. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í það.

Flóttamannastraumurinn er gífurleg áskorun, ekki bara fyrir okkur. Við heyrum af því í fréttum á hverjum degi hvers konar áskorun hann er fyrir velmegandi þjóðir í heiminum. Hvernig getum við best tekið á móti fólki sem er að flýja hörmungar heima fyrir? Ég tel að ríkisstjórnin hafi farið alveg sæmilega af stað í því og varið til þess fjármunum. Í þessari skýrslu eru heitstrengingar um að halda áfram á þeirri braut. Ég vona að svo verði gert. Það var síðla árs 2015 sem ríkisstjórnin ákvað að veita 2 milljarða króna til að bregðast við flóttamannavandamálum. Utanríkisráðuneytið mun þar af verja 750 milljónum til stuðnings alþjóðastofnunum og borgarasamtökum á vettvangi. Ég held að eitthvað hægar hafi gengið að flóttamenn kæmu til landsins en við áttum von á en ég vona að þau störf gangi öll eins vel og frekast er unnt.

Ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra fyrir það hvernig hann hefur brugðist við þrýstingi um að við látum af samstöðu með samstarfs- og vinaþjóðum, ef ég má orða það svo, vegna viðskiptabanns á Rússa og viðskiptabannsins sem Rússar settu á okkur. Þá urðu uppi kröfur hér á landi um að við létum af þessari samstöðu sem var vegna hegðunar Rússa á Krímskaga. Ég vil hrósa ráðherranum sérstaklega fyrir staðfestu hans í því máli. Mér fannst hann bregðast vel við þegar hann sagði að gera þyrfti aðrar ráðstafanir til að hjálpa því fólki, aðstoða eða koma til móts við fólk sem verður fyrir tekjumissi af því. Ef ég man rétt tók ráðherra sérstaklega fram að hann væri að tala um vinnandi fólk en ekki um fyrirtæki sem töpuðu peningum á þessu banni sem Rússar settu á okkur. Ég vil hrósa honum sérstaklega fyrir þetta.

Hvað varðar fríverslunarsamninga þá er alveg ljóst að við þurfum að huga mjög vel að þeim. Samstarfið innan Alþjóðaviðskiptamálastofnunar, WTO, hefur, eftir því sem ég veit best, eiginlega dottið niður og virkar ekki eins og menn kysu, er allavega í mikilli lægð. Auðvitað er best ef hægt er að semja, að allar þjóðir semji saman á sem breiðustum vettvangi. Ég held að það væri best til lengri tíma litið. En stundum er besta leiðin ekki fær og þá þarf að fara aðra leið. Þess vegna fagna ég því að hér er sérstaklega getið um fríverslunarviðræður og við þurfum þá að einbeita okkur að því að gera fríverslunarsamninga við einstakar þjóðir. Ég held að frjáls viðskipti og viðskipti þjóða á milli séu holl efnahagnum og við þurfum að átta okkur á því á að við erum ekki eyland, við lifum í stórum heimi. Það er nú einu sinni svo, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að það hefur sýnt sig að sameiginlegir hagsmunir og viðskipti þjóða á milli hafa líka orðið til að stuðla að friði. Það var til dæmis eitt af meginmarkmiðunum með stofnun Evrópusambandsins, eða Efnahagsbandalags Evrópu eins og það hét þá, að efla viðskipti og tryggja þannig frið í Evrópu. Þetta er ekki léttvægur hluti einn og sér heldur styrkja viðskipti þjóðir, þær hafa sameiginlega hagsmuni og ná þá vonandi sameiginlegri sýn á heiminn og framtíðina.

Ég er búin að hrósa ráðherranum í hástert út af ýmsu og ætla að hætta að hrósa honum. Ég ætla að lýsa sárum vonbrigðum mínum með hvernig hann stóð sig hér með Þróunarsamvinnustofnun Íslands þar sem hann beindi sínum mikla krafti — ráðherrann getur haft mikið kapp þegar hann vill það viðhafa — í vont mál og í vitlausa átt. Ég vil enda orð mín á því að harma það að Þróunarsamvinnustofnun hafi verið lögð niður. Ég held að hún hafi unnið mjög gott starf. Nú á það eftir að koma í ljós en ég tel að það sé ekki til bóta að færa hana inn í ráðuneytið. Nú eigum við eftir að sjá hvernig úr því spilast. En ég hefði frekar kosið að stofnunin yrði efld og losuð frá ráðuneytinu. Það var ekki gert. En það þýðir ekki að ég telji ekki að þetta hafi verið vond ákvörðun og vond ráðstöfun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég óska ráðherranum velfarnaðar í þeim mörgu góðu verkum sem eru sett hér fram í markmiðum og stefnu á næstu árum. Ég vona að vel takist til og hann fái ekki sömu flugu í höfuðið og þessa með Þróunarsamvinnustofnun. Þá hef ég lokið máli mínu.