151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þingmál er um margt athyglivert. Það blasir auðvitað við að þetta er ekki hefðbundið þingmál í ljósi umfangsmikils efnis, vegna þess að þetta er mál sem umhverfis- og samgöngunefnd flytur en ekki samgönguráðherra. Þá kemur auðvitað í ljós, og fylgir því í greinargerð þingmálsins, að uppi eru stjórnskipunarleg álitaefni, sem er auðvitað sérstakt, einkum og sér í lagi þegar um er að ræða nefndarmál af þessum toga.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann um það sem lýtur að því lögfræðilega álitaefni sem fram kemur. Ég myndi vilja biðja hv. framsögumann að reifa stuttlega, þótt hann næði því ekki í svari við mig, en þá í seinni ræðu, niðurstöðu eða þau álitaefni sem þeir lögfræðingar sem fyrir nefndina komu nefndu, (Forseti hringir.) umsögn þeirra eða álit á þessu stjórnskipulega álitaefni, hvort þetta gæti staðist, að þetta ætti við íslenska ríkisborgara. (Forseti hringir.) Mér finnst nefndarálit meiri hlutans mjög gallað að því leyti að það reifar í engu þau álitaefni sem uppi voru fyrir nefndinni (Forseti hringir.) og ummæli eða skoðanir gesta sem komu fyrir nefndina.