154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er akkúrat það atriði sem ég hafði sjálfur mestar áhyggjur af og ég veit að við höfum öll, þ.e. hvað gerist ef viðkomandi einstaklingur fær ekki hlutastarf. Hér erum við þess vegna að kynna til sögunnar tvennt sem á að tryggja afkomuöryggi þessa fólks. Það er annars vegar að í allt að tvö ár greiði ríkið virknistyrk á sama tíma og einstaklingsmiðuð þjónusta er veitt af Vinnumálastofnun við að reyna að finna vinnu fyrir viðkomandi. Takist það ekki þá ber Vinnumálastofnun, áður en þessu 24 mánaða tímabili lýkur, að láta Tryggingastofnun vita þannig að hægt sé að byrja að undirbúa samþætt sérfræðimat fyrir viðkomandi einstakling þannig að hann komist þá annaðhvort að í einhvers konar endurhæfingu að nýju til að bæta hæfni sína á vinnumarkaði eða fari á örorku. Með þessu móti vil ég meina að við séum búin að tryggja það að einstaklingar sem svo um háttar, (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður nefnir hér, muni verða gripnir.