154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég er bara ekki sammála vegna þess að ég vil taka allar gildrur út úr þessu kerfi. Eins og með virknistyrkinn, við þekkjum það af eigin raun eins og er hérna í kerfinu í dag að þegar sérstaka framfærsluuppbótin skerðist strax við fyrstu vinnu þá er það letjandi, fólk dregur sig í hlé. Það getur haft mjög slæmar afleiðingar ef fólk er komið á þann stað að það sem virknistyrkurinn á að vera — að viðkomandi hrekkur í kút og neitar. Hvað skeður? Nú segir einhver: Þú færð 25% eða 30% vinnu og hann segir nei við því vegna þess að hann hugsar með sér: Ég er að fara að vinna en það skilar mér — af því að það er tekinn af mér 95.000 kr. virknistyrkurinn, ég fæ 100.000 kr. þarna, síðan ég borga skatt af því öllu og þá er ég bara í sömu stöðunni. Við verðum að … (Félmrh.: Betur settur.) — Nei, hann er nákvæmlega í sömu stöðunni vegna þess að það er búið að taka af honum 95.000 kallinn og hann er bara í nákvæmlega sömu stöðu. (Félmrh.: Hann er aðeins betur settur.) — Já, kannski um 5.000 kall eða 3.000 kall, ég veit það ekki. Það er bara ekki nóg. Við eigum alltaf að hafa hvatann til þess að viðkomandi sjái það alltaf að ef hann vinnur — ég gæti skilið það ef hann væri kominn í vinnu. Segjum að hann sé með meðallaun um 500.000 kall og hann sé kominn í 500.000 kr., að þá sé allt í lagi að skerða það, en á meðan viðkomandi er, eins og kemur þarna fram, með um 380.000 kr., fær einhverjar 100.000 kr. í viðbót, þá er hann kominn í 480.000 kr., þá á hann eftir að borga skatta af þessu, en síðan skerðist þessi styrkur um nákvæmlega sömu upphæð. (Gripið fram í.) Ég meina, þetta gengur ekki upp. Við verðum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að loka öllum svona gildrum. Vonandi gerum við það í meðförum nefndarinnar og sjáum til þess að þetta kerfi fari nú að virka eins og við viljum og allir geta sætt sig við.