138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni annað andsvarið. Það er þannig að þó að bundið sé í lög að fjárlaganefndin eigi að fylgjast með fjárlögum þá hefur það ekki skilað okkur neinum árangri á undanförnum árum. Það eru oft og tíðum sömu stofnanirnar sem hafa farið fram úr og síðan er framúrkeyrslu þeirra bjargað í aukafjárlögum seinni hluta árs. (BVG: Nú er komið nýtt fólk.) Það væri óskandi, herra forseti, að með því einu að nýtt fólk kæmi að breyttist allt verklag og öll sýn en ég tel málið ekki svo einfalt, herra forseti, að það eitt nægi að kominn sé nýr varaformaður fjárlaganefndar. Það held ég að sé nokkuð ljóst.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom líka inn á tengingu á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Við höfum fært verkefni á milli sveitarfélaga og ríkisins. Margir hafa sagt að þegar verkefni eru flutt frá ríki til sveitarfélaga fylgi þeim ekki nægilegt fjármagn og margir hafa sagt að verkefnunum hafi verið illa sinnt af hálfu ríkisins en þegar þau hafi verið færð yfir til sveitarfélaganna hafi nærsamfélagið tekið við og þess vegna oft meira fjármagn farið inn í þjónustuna heldur en þegar hún var í fjarsamfélagi við ríkið. Það hefur sýnt sig í grunnskólamálum en grunnskólinn er klárlega betri en hann var vegna nærsamfélagsins og þeirrar nærþjónustu sem veitt er. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að ég er ekki að mæla gegn þessu frumvarpi en mér þætti vænt um að jafnræðis væri gætt á milli stjórnsýslustiga og að þeir sem halda utan um fjármál ríkisins þurfi að gera það með sama hætti og ríkið eða Alþingi ætlar sveitarfélögum að gera.