145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tölum nú um vinnubrögð eins og svo oft áður. Að mínu mati hefur oft farið óþarflega mikill tími í slíka umræðu, gjörsamlega að óþörfu.

Það hefði að mínu mati til dæmis alveg mátt ræða þetta mál við aðra flokka. Hæstv. forsætisráðherra hefði alveg getað komið frumvarpinu að þannig að rætt hefði verið við þingflokka fyrir fram, þ.e. ef um einfalda sameiningu er að ræða.

En í frumvarpinu er lagt til að ráðherra fái ákveðið ákvörðunarvald sem hæstv. ráðherra býst ekki við góðum viðbrögðum við í kjölfar umræðunnar sem við áttum hér um agalegt mál sem bar heitið Verndarsvæði í byggð og við greiddum atkvæði um.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna þessi mál eru endilega sett saman. Ef málið er einfalt hagræði og sameining stofnana hygg ég að það væri nokkuð sem hægt væri að ræða. Það er ákvörðun sem varðar frekar kannski skipulag en endilega hvar pólitísk völd eiga heima, sem er önnur spurning og óþarfi að blanda því saman.

En eins og varðandi verndarsvæði í byggð fær maður á tilfinninguna að hæstv. ráðherra sé að sölsa undir sig völd. Eins og fram hefur komið nokkrum sinnum grunar menn að það sé einfaldlega vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hafi persónulegan áhuga á málunum og kemur það oft fram í ræðu og riti.

En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður mundi styðja sameiningu þessara stofnana ef málsmeðferðin væri öðruvísi og annað sem varðar aukið ákvörðunarvald ráðherrans.