151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína og framsögu hans með henni. Hann hafði mikið að segja og þurfti að tala hratt en það er allt í góðu lagi með það, það gera menn gjarnan þegar mikið er undir. En það er nú langt frá því aðalatriði þessa máls.

Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra þegar hann fjallar um mikilvægi EES-samningsins. Við höfum stundum átt orðastað hér í þingsal um EES-samninginn og mikilvægi hans og ég held að við höfum alltaf verið sammála um að hann sé ákaflega mikilvægur. Þess vegna er ég algerlega sammála því sem fram kemur í inngangi, eða formála ætti ég kannski að kalla það frekar, þessarar ágætu skýrslu þar sem er farið yfir það hversu mikilvægur þessi samningur er fyrir íslenska hagsmuni og þess vegna er afskaplega mikilvægt að halda honum mjög á lofti. Það þarf að fræða almenning og fyrirtæki í landinu um hann, ekki síður en samningsaðila okkar í Evrópu. Það þarf sífellt að halda honum á lofti. Við vitum auðvitað að EES-samningurinn, þó að hann sé gríðarlega mikilvægur fyrir okkur, er kannski ekki alveg efst í huga viðsemjandans, Evrópusambandsins, þegar það er að fást við sín mál. Þess vegna er nauðsynlegt að vera sífellt að minna á hann og halda ákvæðum hans mjög á lofti gagnvart Evrópusambandinu.

Ég held að ég geti sagt það með mjög góðri samvisku að hæstv. utanríkisráðherra hefur að mörgu leyti staðið sig mjög vel í þessu hlutverki. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að halda hagsmunum Íslands á lofti vegna EES-samningsins og ég hrósa honum fyrir það. Auðvitað má svo sem alltaf segja að betur megi gera og ég hef áður sagt: Það þarf að gera betur. Það er í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að ávallt er hægt að gera betur. Ég fyrir mína parta sé ekki eftir þeim fjármunum sem varið er í það að halda uppi þessari hagsmunagæslu. Ég held að við eigum að gæta þess mjög að vera á vettvangi eins og við mögulega getum og kosta því til sem þarf því að efnahagslegur ávinningur okkar af þessum samningi er þess eðlis að við verðum að varðveita hann.

Í skýrslunni er farið nokkuð yfir viðfangsefni og kemur ekki á óvart að Covid-faraldurinn hefur sett mark sitt á þetta samstarf, þ.e. framkvæmd EES-samningsins, en auðvitað ekki síður á viðfangsefni Evrópusambandsins. Þau viðfangsefni hafa síðan smitað yfir til okkar EFTA-megin í EES-samningnum og við höfum að mörgu leyti notið mjög góðs af því samstarfi sem hefur varðað viðbrögð við Covid-faraldrinum, þróun bóluefna, kaup á alls konar búnaði o.s.frv. og síðan öflun bóluefna. Og vissulega hefðum við öll viljað að það hefði gengið betur á vettvangi Evrópusambandsins að afla bóluefna með sínum samningum. En það var kannski að hluta til vegna þess að Evrópusambandið tók þá stefnu í upphafi að virða viðskiptafrelsi og leggja ekki bann við útflutningi bóluefna eins og Bandaríkjamenn og Bretar gerðu. Það má segja kannski að Evrópusambandið hafi verið bláeygt að þessu leyti. En allt horfir þetta nú til betri vegar núna og ég hef fyrir því mjög sterka sannfæringu að við hefðum ekki verið neitt betur sett ef við hefðum reynt að standa á eigin fótum í þessum efnum.

Síðan langar mig aðeins að víkja að öðrum þáttum sem varða upptöku gerða hér á Íslandi í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Þar urðu nokkrir hnökrar á, kannski vegna Covid-ástandsins, en almennt talað stöndum við okkur nokkuð vel og það er mjög gott því að þegar samningur af þessu tagi á í hlut er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við, sem erum í einhverjum skilningi minni aðilinn í þessu, Ísland er nú kannski ekki stærst af EFTA-löndunum, stöndum við okkar skuldbindingar og gerum það sem við eigum að gera þannig að það komi ekki til þess að menn fari að velta því fyrir sér hvort áhugi okkar á því að uppfylla okkar skuldbindingar sé að dvína. Þá geti menn hugsað sér að það sé kannski rétt að hætta þessu samstarfi, þ.e. samningsaðilarnir við Ísland. Það má alls ekki gerast. Þannig að ég fagna því að við skulum standa okkur vel í þessu efni og ég sé í skýrslunni að hæstv. ráðherra er algjörlega með það á tæru.

Síðan er það auðvitað þannig að Evrópusambandið ræður ferðinni og það tekur upp málefni sem skipta Íslendinga alveg gríðarlega miklu máli. Hér eru nefndar tvær stórar áætlanir og fyrirætlanir Evrópusambandsins sem varða annars vegar grænan sáttmála Evrópu og hins vegar það sem hér er kallað stafræn starfsskrá ESB. Þetta eru atriði sem munu snerta okkur og það er mjög mikilvægt að við séum mjög vel með á nótunum varðandi það sem er að gerast í þessum efnum.

Hér er sérstaklega fjallað um græna sáttmálann. Þar er t.d. verið að vekja athygli á, hér um miðbikið á síðu 19, svokölluðum kolefnisleka þar sem verið er að vara við hættunni á því að starfsemi færist til annarra landa sem ekki hafa eins ströng skilyrði og m.a. talað um að leggja gjald á innflutning til að tryggja að verð á innfluttri vöru endurspegli kolefnisspor. Kolefnisskattar eru auðvitað verkfæri sem við þurfum að nýta og það mun koma í ljós hvað stjórnvöld vilja gera í því. En ég tel að það sé óhjákvæmilegt að fara þá leið líka hér á Íslandi.

Síðan er fjallað um stafrænu starfsskrána. Þar kemur fram að þau málefni eru á forgangslista ríkisstjórnarinnar og talað um að þetta muni hafa mjög mikil áhrif hér á EES-svæðinu og þar með Íslandi. Ég reikna með að það sama gildi um græna sáttmálann, þó að það sé ekki orðað með þeim hætti í skýrslunni.

Mig langar, af því að tíminn er svo stuttur og það er svo margt sem hægt er að fara yfir, að minnast aðeins á samstarfsáætlanir Evrópusambandsins. Það kemur fram í skýrslunni að Ísland muni ekki sækjast eftir því að taka þátt í öllum samstarfsáætlunum ESB sem í boði eru og í sumum einungis að hluta. Síðan eru taldar upp 12 áætlanir sem ýmist er þá framhaldsþátttaka í eða nýjar áætlanir sem við tökum þátt í. En það hefði verið mjög gagnlegt að hafa líka yfirlit yfir þær áætlanir og þau svið þar sem Ísland hefur ákveðið að sækjast ekki eftir þátttöku og taka ekki þátt.

Svo veit ég að hæstv. utanríkisráðherra yrði fyrir vonbrigðum ef ég myndi ekki minnast hér á það sem fram kemur í inngangi hans um innleiðingu gerða og fjölda þeirra og það sem kemur fram hér um að EES-samningurinn sé besta lausnin fyrir Ísland vegna þess að við fáum allt sem hentar okkur vel og eru okkar hagsmunir en sleppum við annað. Ég vil bara nefna það af því að talað er um 13,4%, sem við höfum áður rætt, að ég saknaði þess nú að hæstv. ráðherra skyldi ekki uppfæra þessa tölu til dagsins í dag af því að það er honum svo mikið kappsmál að við vitum nákvæmlega hvernig þetta er. En þetta er samanburður sem stenst náttúrlega enga skoðun í sjálfu sér. Þetta er álíka og við færum í gegnum íslenska lagasafnið og ætluðum að meta vægi laganna og þá fengju öll lög gildið einn, þar með fengi t.d. stjórnarskráin vægið einn, (Forseti hringir.) og þar með væri ljóst að stjórnarskráin hefði ekkert að segja á Íslandi af því að hún væri bara með vægið einn. (Forseti hringir.) Það skiptir auðvitað öllu máli hvers efnis þessar gerðir eru, en ekki fjöldinn. (Forseti hringir.) Þetta veit hæstv. ráðherra auðvitað, honum finnst gaman að skemmta skrattanum og heldur því áfram.