131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:03]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég talaði líka um að það væru tímamót að við skyldum ná niðurstöðu varðandi sameininguna um sveitarfélagið sem er mjög stórt mál í sveitarstjórnarstiginu, sameiningarnefndin. Ég tel ákveðin tímamót að þorri þeirra manna sem voru í tekjustofnanefnd hafi náð lendingu og niðurstöðu. Mér finnst það tímamót að koma með 9 milljarða innspýtingu á þremur árum. Ég sagði að ég væri ekki alveg sáttur við skiptinguna í framhaldinu. Það var það sem ég var að ræða um.

Tillögur að verkefnatilflutningi verða tilbúnar í haust. Sveitarstjórnarmenn voru ekki að ræða um verkefnatilflutning. Það minnkaði með hverjum einasta fundi sem við vorum á. Það var bara spurt: Hver er niðurstaðan úr tekjustofnanefnd?

Það sem er að breytast hjá sveitarstjórnarmönnum er að menn eru orðnir hræddir við að taka til sín verkefni vegna reynslunnar af rekstri grunnskólanna. Það kemur meiri krafa á nærþjónustu. Menn fara að veita meiri þjónustu en er lögbundin. Þetta er bara staðreynd. Þetta þekkjum við í grunnskólanum. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir enn þann dag í dag: Sveitarfélögin fá peninga í grunnskólana til að sinna lögbundnum verkefnum. Viðbótin sem þeir hafa ákveðið, þ.e. að auka þjónustuna enn meira, er að rugla rekstur sveitarfélaganna.

Jöfnunarsjóður hefur náttúrlega styrkt minni sveitarfélögin. Þess vegna viljum við sjá stærri einingar. Ég held að hann þurfi líka að hjálpa til við sameininguna, við að koma ákveðnum málum af stað. Ég tel að það eigi að nýta jöfnunarsjóð betur í það. Það má alveg deila um stærð eininga. Ég vildi oft sjá öflugri og stærri sveitarfélög, en ég tel að tillögur sameiningarnefndar séu mjög skynsamlegar og þið verðið að mæta á morgun þegar leyndarmálinu verður uppljóstrað.