139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hygg að um það getum við þó verið sammála, þótt skoðanir séu skiptar, að umræðan um atvinnumál sé kannski það verkefni sem hvað mestan tíma ætti að taka á þingi eins og staðan er.

Ég verð samt að segja alveg eins og er að meðan ég hlustaði á hæstv. forsætisráðherra hvarflaði að mér hvort við byggjum í sama landinu. Þegar hæstv. forsætisráðherra lýsti rauntölum í efnahagslífinu þótti mér hún lýsa ákveðinni stöðnun í efnahagskerfinu. Hver er ástæðan fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru núna? Hvernig stendur á því að það er engin hreyfing á hagvexti núna þegar við erum komin nokkuð langt inn á árið 2011?

Menn tala um að það sé verið að tala hlutina niður, hingað komi menn og séu bara að gagnrýna. Ég vil segja það fyrir minn hatt að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur allt frá kosningum lagt fram tillögur um hvernig eigi að glíma við þann vanda sem hér er við að etja. Síðast lögðum við fram efnahagstillögur í fyrrahaust þannig að ég hafna því algjörlega að hér séu menn ekki komnir til að leggja fram tillögur til að vinna sig út úr vandræðunum.

Auðvitað er staðreyndin sú að meginvandinn í atvinnulífi okkar núna er sá að sú umgjörð sem ríkisstjórnin skapar er íslenskum fyrirtækjum fjandsamleg. Hún er hreint út sagt fjandsamleg. Hér er ekki verið að tala um neinar skyndilausnir. Hins vegar halda erlendir og innlendir fjárfestar nú að sér höndum vegna þess að hér er pólitísk óvissa. Ég held að margir geti tekið undir það að stefna ríkisstjórnarinnar sé sjálf eins og hún liggur fyrir ákveðin efnahagsleg ógn við þá endurreisn sem hér þarf að verða.

Skattkerfið er orðið allt of flókið. Menn nefna það sem dæmi um fyrirstöðu í umgjörð atvinnulífsins í þessu landi. Umgjörð efnahagsumhverfisins veldur þeim miklu vandræðum sem við stöndum frammi fyrir núna. (Forseti hringir.) Það er ekkert verkefni brýnna fyrir hæstv. ríkisstjórn en að snúa sér að því að einfalda (Forseti hringir.) þetta aftur þannig að við fáum hér fjárfestingu og sköpum Íslendingum störf.