140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[22:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns skil ég hann svo að þar sem ekki eru allar tillögur starfshópsins undir í þessari umferð sé sjálfsagt og eðlilegt að tefja það frumvarp sem við ræðum hér og sjá til þess að það fari ekki til nefndar.

Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína fyrr í kvöld hefði hann heyrt að verið er að vinna með allar tillögur starfshópsins í ráðuneytinu sem hv. þingmaður nefndi áðan og er stefnt að því að tillögur liggi fyrir í þinginu í haust og verði kynntar þá. Eins og hv. þingmaður hefur væntanlega kynnt sér lagði starfshópurinn fram ýmsar hugmyndir um fjármögnun og yfir þær er verið að fara í ráðuneytinu ásamt fleiri atriðum er varða húshitun.

Þetta frumvarp tengist meðal annars lagningu hitaveitu til Skagastrandar og er gert ráð fyrir að með lagningu hitaveitu til Skagastrandar verði fjármögnunin með 180 millj. kr. framlagi sveitarfélagsins, 50 millj. kr. með sérstöku framlagi af fjáraukalögum 2011 og 30 millj. kr. framlagi til sóknaráætlunar samkvæmt fjárlögum 2012 og 150 milljónum á grundvelli 12. gr. laga nr. 78/2002. En miðað við óbreytt lög þarf að draga þær 80 millj. kr. frá 115. millj. kr. styrknum sem Alþingi hefur ákveðið að verja sérstaklega til byggingar hitaveitunnar. Það mundi leiða til þess að forsendur fyrir byggingu hitaveitunnar mundu bresta og við því er brugðist með þessu frumvarpi. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji það vera ástæðu til að tefja fyrir því að þetta frumvarp fari í gegn og (Forseti hringir.) þar með lausn fyrir þessa hitaveitu aðeins vegna þess (Forseti hringir.) að ekki er búið að vinna úr tillögum starfshópsins.