141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, það vantar miklu meiri skilning á umhverfi og rekstrarumhverfi fyrirtækjanna og það getur haft miklar afleiðingar fyrir lagasetningu hér á landi. Ég held að óhætt sé að fullyrða að ef maður tekur saman alla þá eftirlitsaðila sem þurfa að koma að úttekt á fyrirtæki, til dæmis fiskvinnslufyrirtæki, eru það ekki einn til fjórir menn, nei, þeir eru mjög margir og oft og tíðum skoða þeir mjög sambærilega hluti. Það mætti einfalda til mikilla muna og beina kröftunum í rétta átt. Hv. þingmaður nefnir hér dæmi um slíkar kröfur, þ.e. um vefsíður. Það er auðvitað dæmi um skilningsleysi stjórnmálamanna sem setja fram reglurnar. Æskilegra væri að mínu mati að fleiri hv. þingmenn hefðu starfað við atvinnurekstur og kynnst því hvernig það er að vera í þeirri stöðu, því að það er mikill munur á því að vera áskrifandi að laununum sínum, fá þau bara send heim, eða því að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort maður geti staðið við að borga fólki launin sín á réttum tíma. Það er dálítið annað umhverfi. Ég hef mjög lengi verið sjálfstætt starfandi. Nú er ég búinn að vera á þingi í fjögur ár og það er voðalega þægilegt að vera hér í notalegri innivinnu, eins og sagt er, og fá bara alltaf launaumslagið heim. Það er voðalega þægilegt. Hitt gat oft verið mjög taugatrekkjandi.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um mikilvægi þess að einfalda til dæmis tollaflokkana. Búið er að tala um það í mörg ár og jafnvel áratugi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji það ekki mjög mikilvægt í upphafi næsta kjörtímabils að menn einfaldi kerfið með það að markmiði að reyna að búa til hvata til þess að geta (Forseti hringir.) farið að versla meira við fyrirtækin hér heima.