143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða á þessum tveimur stuttu mínútum um þjóðarsál Íslendinga. Ég ætlaði mér að velta vöngum yfir því hvað mótar hana. Hvers vegna nærist þjóðarvitundin sífellt á neikvæðum fréttum fremur en jákvæðum? Ræðan sem flutt var hér á undan staðfestir það fullkomlega. Við nærumst á því að níða aðra og reyna að finna eitthvað sem er neikvætt fremur en að taka undir það sem verið er að gera gott.

Það eru stórkostlegir hlutir að gerast á Alþingi. Af hverju getum við ekki glaðst yfir því?

En þetta er ekki nýtt, það er ekki nýtt því að Íslendingum hefur verið innprentað að nánast allt hafi verið í myrkviði og skósólaáti og það hafi viðgengist hér heilu aldirnar.

Anna Agnarsdóttir prófessor fór á kostum í afmæli um 18. aldar fræði sl. laugardag og hún lýsti upp 18. öldina. Hún sagði frá því hvernig menningarstraumar og lífsmunstur hér var svipað og meðal menningarþjóðanna í Evrópu.

Vissulega varð hér bæði heilsufarslegt og efnahagslegt hrun fyrir 300 árum, í stórubólu, en síðan tóku við ágætistímar heillar kynslóðar eða fram í lok aldarinnar. Reykjavík reis sem iðnaðarbær en Örfirisey var kaupstaðurinn.

Fræðimaðurinn Hrefna Róbertsdóttir birti afar grípandi grein um innflutning til landsins á því herrans ári 1784. Hún fann innflutningsskýrslu frá því erfiða ári okkar sem er einstæð heimild um mataræði, lifnaðarhætti og byggðamenningu. Undir spúandi eldfjalli fluttum við til landsins algjöra munaðarvöru þetta ár sem önnur ár, saffrankrydd, kóríander, ólífuolíur, fíkjur, kransakökur með kaffinu, gullhringa, pelsa, postulín, silfur (Gripið fram í.) og silki. Þetta var almennt. Það voru mjög margir Íslendingar sem fluttu það inn þetta ár, sem er talið algjört svartnættisár í sögu þjóðarinnar. En við viljum heldur trúa neikvæðninni, hvort sem það er um horfnar aldir eða í núinu, fremur en að (Forseti hringir.) treysta á getu okkar og tækifæri. Stíll, orðfæri og hegðun hefur áhrif á börnin okkar (Forseti hringir.) og neikvæðni smýgur inn í sálarfylgsnin og skelfir þau, samanber þingsályktunartillögu hv. þm. Karls Garðarssonar.

Við skulum móta þjóðarsálina með bjartsýni, jákvæðni og trú á mátt okkar og megin.