143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég var hluti af flokki sem lagði til að farið yrði í 20%-leiðina fyrir kosningarnar 2009. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekkert frekar en nokkur annar hverjar afleiðingarnar hefðu orðið en lausnin var útfærsla sem gekk út á að búa til sjóð sem kröfuhafarnir og bankarnir hefðu lagt í. Ég held að það hefði verið mögulegt að gera það en maður veit ekki hverjar afleiðingarnar verða þegar teknar eru svona stórar ákvarðanir, ekkert frekar en þeir sem trúðu því, og ég var líka sannfærð um það, þegar við vorum í Icesave-slagnum að við færum lóðbeint á hausinn ef við mundum samþykkja samninginn eins og hann lá fyrir.

En það er áhætta í öllum stórum ákvörðunum og það sem ég sakna hér er heildræn sýn varðandi húsnæðismál hér á landi því að hana vantar fullkomlega.