150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir það með hv. þingmanni að þetta er nokkuð sem nefndin þarf að fara gaumgæfilega yfir. Þá ætla ég að vona að við fáum að kalla til sérfræðinga til skrafs og ráðagerða í nefndinni. Það hefur verið stigið svolítið ofan á nefndina hvað það varðar undanfarið eins og ég hef komið á framfæri í ræðu og riti.

Hv. þingmaður talaði um að útvíkka hugsanlega þetta úrræði og þá langar mig að spyrja hv. þingmann um hlutabótaúrræðið. Telur hún að jafnvel eigi að útvíkka það á þann veg að það lúti einnig að uppsagnarfresti. Nú er stutt í mánaðamótin, þau eru í næstu viku og þarna eru hlutir sem verða að liggja fyrir vegna þess að ef það fer svo að segja þarf upp starfsmanni sem er á hlutabótaleiðinni kostar það uppsagnarfrest (Forseti hringir.) á fullum launum til þriggja mánaða gegnumgangandi. Það er kostnaðarsamt fyrir fyrirtækin. Hver er skoðun hv. þingmanns á því hvort hlutabótaúrræðið eigi einnig að lúta að uppsagnarfresti?