131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:29]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum vissulega ólík pólitísk viðhorf, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn. En við höfum oft á tíðum sýnt að við vildum sinna þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu, báðir þessir flokkar.

Maður getur skilið það að Vinstri grænir vilji vera skattpíningarflokkur en maður skilur ekki að þetta skuli vera tillagan, þegar svo mörg sveitarfélög sem raun ber vitni nýta sér ekki þær útsvarsheimildir sem þau hafa. Hefði ekki frekar verið ástæða fyrir Vinstri græna að snúa sér frekar að veikum sveitarfélögunum, þeim sem fullnýta útvarsheimildir sínar og þurfa önnur ráð en þau að hækka útsvarið? Ég hefði frekar reiknað með því að slíkar tillögur kæmu frá Vinstri grænum en ekki að hækka útsvarið heilt yfir og færa útsvarsheimildir til sveitarfélaga sem ekki þurfa á því að halda. Okkur er fullkomlega heimilt að hafa andstæðar skoðanir á þessu en það kom mér á óvart að Vinstri grænir skyldu ekki verja orku sinni í markvissari aðgerðir.