141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einn við völd í 18 ár er víðtekin venja hjá mörgum hv. stjórnarliðum að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem gerðist, þar á meðal hrunið, eins og flokkurinn hafi verið einn við völd. Auðvitað var hann ekki einn við völd. Auðvitað voru aðrir flokkar með eins og Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin síðustu tvö árin af þeim 18 þegar útgjaldaaukningin var mjög mikil. Ég var kannski ekki alltaf voðalega sáttur við hana, ég átti ekki von á hruni en gerði ráð fyrir því að einhvern tíma þyrfti að borga og nú er komið að gjalddögunum.

Að sjálfsögðu voru aðrir flokkar með Sjálfstæðisflokknum og þess vegna finnst mér ósanngjarnt að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um hrunið eins og Samfylkingin hafi ekkert komið nálægt því. Það vill svo til að hún átti þau ráðuneyti á þeim tíma, tveim árum fyrir hrun, sem kannski höfðu mest um það að segja að standa gegn því, eins og viðskiptaráðuneytið og bankamálaráðuneytið o.s.frv.

Varðandi hitt að gera eitthvað fyrir unga fólkið er ungt fólk á ýmsum aldri. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem eru undir þrítugu í dag hafi ekki fundið mikið fyrir afleiðingum hrunsins af því að þeir voru ekki byrjaðir að kaupa sér íbúðir. Það er fólk sem er 30–45 ára í dag sem lenti kannski verst í gengistryggðum lánum. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði einmitt um það á landsfundi sínum, hann mun aðstoða fólkið þannig að það geti dregið afborganir af húsnæðisskuldum og greiðslur af húsnæðisskuldum frá skatti og vil ég sérstaklega horfa til þeirra sem lentu í eignabólunni.