143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef spáð og spekúlerað mikið í verðtrygginguna og ég er ekki 100% sannfærð um að verðtryggingin sé mesti fjandinn. Ég er aftur á móti sannfærð um að 40 ára verðtryggð lán séu mikill fjandi þannig að það væri vissulega búbót eða skynsamlegt að stytta tímann í 20 ár. Ég treysti ekki bönkunum, hv. þingmaður. Ég treysti þeim ekki fyrir óverðtryggðu lánunum og meðan svona mikil óvissa ríkir verður fólk að fara í rússneska rúllettu með húsnæðislán sín. Það er slæmt. Ég held að við þurfum að skoða peningastefnuna heildrænt og við þurfum að fá svör við því hvers konar gjaldmiðil við ætlum að hafa. Það er mjög brýnt að ræða þessa hluti í samhengi.