145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur í dag sagt að hann ætli ekki að segja af sér embætti þrátt fyrir það sem á undan er gengið, skuli hopa af hólmi héðan úr þingsalnum við fyrsta tækifæri. Þunginn í umræðunni í dag hefur ekki aðeins verið af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessum þingsal. Þunginn, sem sýnir auðvitað alvarleika málsins, er hérna fyrir utan, á Austurvelli. En mig langar, vegna þess að ég hygg að nú sé að síga á seinni hlutann á þingfundi, að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa þó tekið þau mál sem áttu að vera á dagskrá út af dagskránni og vil taka undir með öðrum þeim hv. þingmönnum sem hafa farið þess á leit að engin (Forseti hringir.) önnur mál fari á dagskrá fyrr en vantrauststillaga á forsætisráðherra verði tekin til umræðu, að við ræðum ekki nein önnur þingmál fram að því.