132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil alveg sjónarmið sjálfstæðismanna. Fyrir þá er það ekkert mál að einkavæða almannaþjónustuna og eðlilega skilur hv. þm. Kjartan Ólafsson ekkert í því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem berjumst fyrir sterkri velferðarþjónustu, séum að bera fram rök gegn því að einkavæða almannaþjónustuna.

En ég skil alveg að sjálfstæðismenn vilja einkavæða almannaþjónustuna og þess vegna er eðlilegt að hv. þm. Kjartani Ólafssyni finnist þetta vera óþarfi því þetta gengur þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem vill einkavæða almannaþjónustuna.

Ég nefndi Símann og einkavæðingarferli hans í þessu sambandi, það er hárrétt. Ég held að það væri mjög hollt fyrir hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem er mikill einkavæðingarsinni eins og hann lýsti hér, að lesa samt einkavæðingarferli Símans sem byrjaði bara góðlátlega með hlutafélagavæðingu til að nútímavæða reksturinn, nákvæmlega eins og það sem hér er til umræðu. En hvað sagði þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, flokksbróðir hv. þingmanns? Hann sagði: Það kemur að sjálfsögðu ekki til að Póstur og sími verði seldur. Þetta er nákvæmlega sama ferlið hér. Það á að hlutafélagavæða Rafmagnsveitur ríkisins en kemur að sjálfsögðu ekki til að þær verði seldar.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég virði þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem segja hér alveg opinbert að þeir vilji einkavæða almannaþjónustuna og telji hana betur einkavædda en rekna á félagslegum grunni. En þar erum við bara ekki sammála. (Forseti hringir.)