150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bjartsýnina og góð orð gagnvart málinu. Hann hefur ásamt öðrum nefndarmönnum lagt því lið að gera málið enn betra. Ég held að við í nefndinni séum öll sammála um að það sé góð viðbót að styrkja fagráðið, að það sé ekki bara heimild heldur skylda að skipa fagráð og fá víðari sýn á málið. Eins og kemur fram í nefndarálitinu leggjum við mikla áherslu á að horft sé til fjölbreyttra verkefna. Við vitum að þessir sjóðir á vegum sjávarútvegsins og landbúnaðarins, AVS og framleiðnisjóðurinn, hafa verið að styrkja mismunandi verkefni og það þarf að halda utan um þau, líka ólík verkefni. Það hefur verið ýmislegt hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins sem er kannski ekki alveg hefðbundið. Þessi nýi sjóður á að rúma slíkt. Það kom fram hjá gestum sem komu fyrir hönd Framleiðnisjóðs landbúnaðarins að þar hafa verið mörg verkefni og þróun varðandi ýmis mál í þeirra geirum, jafnvel bara girðingar og ýmislegt sem tengist landbúnaði og jarðyrkju yfir höfuð. Ég tel að það sé skýr vilji að þessi sjóður haldi utan um ólíkar framleiðslugreinar. Landbúnaðurinn hefur verið að styrkja sig mjög mikið og ég held að hann sé á fljúgandi ferð inn í framtíðina, að vera ekki bara frumframleiðslugrein heldur fullvinnslugrein. Garðyrkjan á mikil tækifæri. Eins og kom fram í máli formanns Bændasamtakanna eru Bændasamtökin samtök allra geira í landbúnaði og grænmetisframleiðslan hefur sterka stöðu og það er virkilega horft til hennar á þessum tímum.