139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

508. mál
[18:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja það fyrir hönd okkar sem sitjum hér og hlustum á hinn ágæta málflutning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að við höfum sennilega ekkert á móti því að fólk sé töluvert þykkt og pattaralegt því að því fylgir oft skemmtileg lífsgleði, eins og ég og hv. þm. Jón Gunnarsson, sem fyrr á tíð féllum undir þessa skilgreiningu, vitum mætavel.

Ég kem einungis hingað til að taka undir með hv. þingmanni. Mér finnst þetta frábær hugmynd. Ég held að það yrði mjög til að aðstoða neytendur við að velja sér holl matvæli. Sömuleiðis er það líka partur af því að halda áfram að vera í forustu eins og Norðurlöndin hafa gert. Ef Íslendingar tækju merkið upp, eins og Finnar eru komnir langleiðina með, yrði þetta eins konar samnorrænt heilsuátak, samnorrænt vörumerki fyrir heilsusamleg matvæli. Ég tel að það sé mjög gott og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur áður sýnt að hún er mikill leiðtogi fyrir heilsusamlegar þingsályktanir frá hinu háa Alþingi. Hv. þingmaður tók vel á þegar hún kom í gegnum þingið vörnum gegn transfitusýrum og lyfti því í reynd inn í íslenska umræðu. Það var mér algerlega framandi þangað til hv. þingmaður tók það mál upp. Í kjölfar þess, eftir að hafa kynnt mér það mál, komst ég að raun um að hún hafði algerlega lög að mæla í því efni. Ég er sannfærður um það eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns að þetta er mjög jákvætt mál og ég styð það.