154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[14:00]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kann vel að vera að hv. þm. Dagbjört Hákonardóttur hafi rétt fyrir sér og hún hefur uppi varnaðarorð í þessu samhengi. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði hérna áðan og kannski af því að ég tók eftir því að hv. þingmaður kímdi þegar ég sagði að horft væri til danskrar fyrirmyndar en það er nú bara það sem stendur í meginefni frumvarpsins og ég held að það sé bara ágætt mál enda Danir okkur að góðu kunnir — ég vil undirstrika að þetta er mikilvægur ferðamáti. Hann hefur vaxið hratt en reglurnar um notkun hans og hvernig á að tryggja öryggi í almannarýminu og umgengni í almannarýminu með þessum ferðamáta eru ekki nægilega skýrar. Ég held að ein afleiðingin af því og ein birtingarmyndin af því sé til að mynda sú sem við sjáum í slysatölum og slysatíðni sem dregur alla slysatíðni varðandi umferðarslys upp í landinu, af því að það tengist m.a. þessum fararskjóta. Þá er ábyrgð okkar mjög mikil hér á þingi að tryggja það að ná fram eins skýrri lagaumgjörð og hægt er miðað við reynsluna sem við þekkjum þannig að við fetum þennan fína meðalveg, að tryggja að lagaumgjörðin sé til staðar en þó ekki að það virki fráhrindandi við notkun ferðamátans sem ég og hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um að er mikilvæg viðbót í hina fjölbreyttu flóru.

Svo ætla ég að leyfa mér að vera aðeins ósammála hv. þingmanni því að ég held að uppbygging göngu- og hjólaleiða, sem hefur verið mjög vaxandi á undanförnum áður og aukin krafa um það hjá öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að gefið sé enn meira í því samhengi, hafi gengið alveg merkilega hratt fyrir sig. Alla vega fer ég um mjög marga af þessum stígum og götum frjálslega og líður bara vel. Þannig að ég held að þetta sé bara allt á réttri leið, hv. þingmaður, og það er ekki eins slæmt og kannski einhverjir vilja vera láta.