135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:32]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta þann misskilning að drekkhlaðin skip fari inn á Bakkafjöru. Ég er ekki að tala um að loðnuskip, síldarskip eða kolmunnaskip landi í Bakkafjöruhöfn. Það er langt í frá. En skip gætu komið þar og landað nokkrum gámum og vertíðarbátur sem er helmingi minni en ferjan sem er verið að smíða, 150 tonna vertíðarbátar geta komið þarna þó þeir séu ekki drekkhlaðnir. Þeir síga jafnvel ekki nema um eitt fet þó þeir séu með fulla lest af fiski. Það er náttúrlega dæmigerður útúrsnúningur og þekkingarleysi sjálfs samgönguráðherra þegar hann talar með þessum hætti vegna þess að í dag landa vertíðarbátar gámafiski í Vestmannaeyjum sem er fluttur með Herjólfi upp í Þorlákshöfn og trukkaður þaðan í skip í Reykjavík. Svo sigla skipin fram hjá Vestmannaeyjum og koma ekki við þar og Vestmannaeyingar tapa auðvitað hafnargjöldum af þessu. Það kostar að fara með gámafisk með Herjólfi og það er hægt að gera það ódýrara með því að fara inn á Bakkafjöru og landa þar.

Þú svaraðir ekki þeim spurningum sem þú varst spurður um. Hvað var tilboðið í nýju ferjuna sem á að sigla upp á Bakka? (Gripið fram í: Hæstvirtur.) Þú hefur ekki svarað því. (Gripið fram í: Hæstvirtur ráðherra.)

(Forseti (MS): Forseti minnir á að beina orðum til forseta en ekki einstakra þingmanna.)

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað ferjan nýja kostaði sem verið var að opna tilboð í.

Tæknifræðingar bjuggu til garðana sem hurfu. Í Bolungarvík var grjótgarður sem týndist í vondu veðri. Á Bakkafirði tapaðist einn garður og (Forseti hringir.) í Grímsey. Það hafa verið slys í (Forseti hringir.) í byggingum hjá tæknifræðingum.