140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur það komið fram hjá meiri hluta nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að málið njóti víðtæks stuðnings, mikið samráð hafi verið og annað því um líkt. En það sem hv. þingmaður er að segja hér og staðfesta, þ.e. að andstaðan hefur almennt vaxið við þetta hjá aðilum sem jafnvel voru frekar fylgjandi þessu árin 2009, 2010, eru auðvitað dálítið merkileg tíðindi og nálægt því að vera hneyksli. Það vekur upp þær spurningar hvort ekki hefði verið eðlilegt að málið hefði farið til umsagnar því að þessi breytta afstaða margra aðila til málsins liggur ekki neins staðar frammi, og hver rökin voru fyrir því. Er þetta ekki eitthvað sem hefði átt að koma fram í eðlilegu umsagnarferli og hefði þar af leiðandi verið öllum þingmönnum hér inni ljóst en ekki einungis þeim sem eiga sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd?