Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að bæta aðeins við upplýsingarnar um húsnæðisbæturnar sem við vorum að ræða hérna áðan, af því að ég var að nefna einhverjar prósentutölur. Það eru í fjármálaáætluninni um 24 milljarðar eða 9,5 milljarðar á ári sem fara í húsnæðisbætur og er talsvert hærri upphæð heldur en var hér á árum áður. En ég er sammála hv. þingmanni. Við verðum að halda áfram að fylgjast með þessum markaði og taka utan um þennan hóp til að styðja hann.

Varðandi síðan hitt sem hv. þingmaður kom inn á, að lóðaskortur og alls konar aðrir hlutir hafi hamlað uppbyggingu, þá er það einmitt ástæðan fyrir þessari húsnæðisstefnu sem við erum að leggja upp með og rammasamkomulaginu við Samband íslenskra sveitarfélaga og síðan með samningum við einstök sveitarfélög, það er til þess að tryggja að það séu til lóðir, ekki bara nægilegur fjöldi lóða heldur tilteknar lóðir svo hægt sé að byggja m.a. íbúðir á viðráðanlegu verði, allt að 30% eins og markmiðið er. Við náum því auðvitað ekki strax á fyrsta árinu eins og ég ræddi hér við annan hv. þingmann fyrr í dag. Við náum strax að auka við það og smátt og smátt náum við þessum fjölda og erum með langtímaáætlun upp á tíu ár, sem við höfum aldrei haft áður, sem ég held að muni skipta máli bara efnahagslega séð og verðbólguvæntingalega séð og einnig fyrir byggingaraðilana. Ég er sannfærður um að þetta sé leiðin sem við höfum.

Áskorunin núna er hins vegar býsna mikil vegna þess að við erum auðvitað í mjög hárri verðbólgu og markaðsaðilar eru væntanlega að draga sig svolítið út af markaðnum. Þá hlýtur að vera gott tækifæri fyrir ríkið að stíga inn og byggja þessar íbúðir með opinberum stuðningi. Það er síðan alveg rétt sem hv. þingmaður segir að okkur fjölgar mjög hratt, fjölgaði um 11.000 í fyrra. Ég held að Hagstofan hafi verið að spá fjölgun um 2.000–3.000 manna fjölgun og hún reynist síðan 11.000. Ég er sammála hv. þingmanni að sú áskorun sem felst í því annars vegar að taka á móti öllu því fólki sem við þurfum til þess að halda uppi atvinnulífinu og hins vegar flóttamönnum (Forseti hringir.) eru áskoranir sem leggjast ofan á húsnæðismarkaðinn og við verðum auðvitað að vera meðvituð um að það gæti þýtt að (Forseti hringir.) við gætum þurft að byggja meira en minna.