Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það var fyrir um 20 árum að ég fór ásamt fleirum stjórnendum í framhaldsskólum á skólamessu í Gautaborg. Umræðan var um hvernig framhaldsskólar undirbúa nemendur sem best og í lok messunnar voru sex 18 ára ungmenni spurð um hvers þau væntu af skólanum í þessum efnum. Fimm þau fyrstu vildu vel launaða vinnu í framtíðinni svo þau gætu keypt sér fín hús og bíla. Seinust fékk stúlka orðið sem hafði komið níu ára gömul til Svíþjóðar frá Indlandi og hún sagði, með leyfi forseta: Peace of mind — hugarró. Hún vildi að skólinn hjálpað ungmennum að öðlast hugarró.

Mér hefur oft verið hugsað til þessarar stúlku, ekki síst núna þegar andlegri heilsu ungs fólks, einkum stúlkna, hrakar mikið hér á landi. Hafa skólar og samfélagið allt lagt meiri áherslu á að undirbúa fjárhagslega velgengni, lagt meiri áherslu á skilvirkni og hagkvæmni en andlegt heilbrigði, hugarró?

Í þættinum Sprengisandi í gær var athyglisvert viðtal við Viðar Halldórsson, prófessor við Háskóla Íslands. Umræðuefnið var byltingin sem nú stendur yfir í gegnum samfélagstæknina. Viðar benti á að samskipti við fólk augliti til auglitis skorti og fólk taki minni og minni þátt í lífinu fyrir utan miðlana. Nauðsynlegt sé að gefa félagslega þættinum í farsælu lífi meiri gaum, hann sé límið sem heldur samfélaginu saman og samfélagsmiðlarnir sogi mennskuna úr samskiptunum og það hafi afleiðingar. Ein birtingarmyndin sé hrakandi andleg heilsa ungs fólks. Skólarnir eru lykilstofnanir til að vinna gegn þessari hættulegu þróun. Nemendur þurfa einnig gott aðgengi innan skóla að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf. Slíkur stuðningur er ekki fjármagnaður í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að fjármagna þurfi forvarnir, bæði til að spara háar upphæðir ef andlegri heilsu hrakaði til lengri tíma en einnig til að bæta lífsgæði og hagsæld?