Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og get tekið undir margt af því sem fram kemur í máli hans, að þetta sé samfélagslegt verkefni þannig að það er ekki alltaf hægt fyrir okkur foreldra, nú tala ég sem foreldri, að segja að ábyrgðin sé bara skólanna, ábyrgðin er líka á foreldrunum og heimilunum. En það breytir ekki því að ábyrgð skólanna er engu að síður ofboðslega mikilvæg, ekki síst í því tilliti að um er að ræða jöfnunartæki. Mig langar bara að nefna að ég fagna því mjög sem fram kemur hér um tækifæri til úrbóta þegar verið að tala um ráðgjafaráð og hvernig á að innleiða hagfræði- og félagsfræðilega aðferðafræði við kostnaðar- og ábatamat í tengslum við ákvarðanatöku. Ég held að það sé mjög mikilvægt í ljósi þeirra samfélagslegu umræðu sem hefur átt sér stað um lestrarkennslu og hvaða aðferðir eru betri eða síðri hvað það varðar, að það sé einmitt einhvers konar fagráð sem geti veitt okkur stjórnmálamönnum ráðgjöf í því og ekki síst sveitarfélögunum og inn í skólana.

En að því sögðu þá langar mig að ræða líka um börn af erlendum uppruna og sérstaklega fjölda flóttabarna núna sem skólarnir okkar eru margir hverjir að taka ofboðslega vel á móti. En það er líka þannig að skólarnir, sérstaklega í ákveðnum sveitarfélögum, hafa engan veginn þær bjargir sem þarf á að halda. Sjálf hef ég talað fyrir einhvers konar móttökuskóla og ég veit að bæði í Reykjavík og í Hafnarfirði hafa þau verið að gera það mjög vel og ég held hreinlega, og ég spyr kannski hæstv. ráðherra hvort hann geti verið sammála mér í því, að það sé mikilvægt að ríkið stigi þar ákveðin skref og fjármagni einhvern móttökuskóla, alla vega hér á höfuðborgarsvæðinu og með stuðningi á landsbyggðinni þar sem hægt er að fá þetta fagfólk sem vel þekkir til mála til að taka þessar byrðar af sveitarfélögunum sem við vitum (Forseti hringir.) svo vel að hafa nóg að gera um þessar mundir. Þá kasta ég því líka fram að ég held að það sé líka mikilvægt, og ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það, að hvetja til þess að hér verði starfandi fleiri alþjóðaskólar.