Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Vissulega er fjármálaáætlunin aðeins rammi um rekstur ríkisins næstu ár og aurarnir ekki eyrnamerktir á einstök verkefni en ráðstöfunarfé á málefnasvið gefa þó ákveðnar vísbendingar um hvert svigrúmið sé. Í tilfelli málaflokksins sem við ræðum hér stendur að þjóðaröryggisstefnan sé það leiðarljós sem unnið er eftir og jafnframt að utanríkisráðuneytið beri ábyrgð á að byggja upp, samhæfa útbúnað, gera áætlanir og auka getu gagnvart ógnum sem kunna að steðja varðandi öryggi þjóðarinnar. Nú erum við með nýsamþykkta og ylvolga þjóðaröryggisstefnu þar sem skilgreindar eru fleiri og víðtækari ógnir en áður sem við erum mjög berskjölduð fyrir. Vissulega er kjölfestan þátttaka okkar í NATO og tvíhliða samningur við Bandaríkin og stendur til að auka 900 milljónir þar í, sem er ágætt, en það eru líka nefndir nýrri þættir, svo sem fjölþáttaógnir og ekki síst netöryggi. Það væri auðvitað mjög mikill barnaskapur hjá okkur að halda að það þurfi ekki að verja upphæðum í að styrkja okkur gagnvart þessu, nema fólk álíti að nóg sé að nefna hættu til að bægja henni frá. Vissulega falla margar nauðsynlegar aðgerðir til að auka þennan viðnámsþrótt undir önnur ráðuneyti en það er þó algerlega skýrt af texta málaflokksins að utanríkisráðherra er helsti vörsluaðili þjóðaröryggisstefnu og hlýtur að ganga hart eftir því að þessir þættir verði styrktir þannig að stefnan sé virk, verði með öðrum orðum fullfjármagnaðir og hrundið í framkvæmd.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort þessi fjármálaáætlun tryggi að þjóðaröryggisstefnan verði virk, hvort hún geti útlistað helstu aðgerðir sem ráðast á í til þess að svo verði og hvernig eftirlit og eftirfylgni ráðherra með öðrum málefnasviðum sé til að tryggja að þetta verði þannig.