Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir mikilvægi þessa málaflokks sem við þurfum alltaf að hafa í forgrunni og þakka fyrir góða skýrslu sem birtist nú á dögunum frá ráðuneytinu, sem er skýrsla starfshóps um stöðumat og áskoranir varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni og taka stöðuna hverju sinni. En að öðru.

Fyrir nokkrum vikum átti ég samtal við hæstv. ráðherra um úrgangsmál og stöðu á förgun á dýrahræjum. Nú á síðastliðnum vikum höfum við rækilega verið minnt á það hvað þessi málaflokkur er í miklum ólestri. Þetta hefur sérstaklega tekið á bændur sem standa í þeim erfiðu sporum núna þegar farga þarf á annað þúsund sauðkindum vegna riðu í Miðfirði. Það er einungis einn brennsluofn til staðar hér á landi til að brenna hræ og annar hann ekki þörf og er reyndar bilaður þegar nú liggur mikið á. Söfnun hræja og förgun er bæði mjög dýr og erfið í framkvæmd, m.a. vegna varnarlína. Nokkur sveitarfélög hér á landi hafa boðið upp á þá þjónustu að safna saman dýrahræjum af sjálfdauðum dýrum og dýrum sem lógað er vegna sjúkdóma sem og sláturúrgangi og koma til förgunar en það er varla í boði lengur. Það er líka ekki lausn að flytja smitaðan úrgang milli varnarlína og hlýtur það alltaf að vera neyðarlausn. Staðan sem er nú uppi minnir okkur rækilega á að það þarf að skoða þessi mál með hraði en þó með varanlegri lausn að markmiði.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þessarar stöðu hvort við getum séð brennsluofna á fleiri svæðum á landinu þar sem smithætta fylgir alltaf flutningi dýraafurða.