140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir varðandi skýrslu þingmannanefndarinnar, þetta er bara svart á hvítu. Hvað varðar Norðurlöndin er stjórn efnahagsmálanna komið fyrir með mismunandi hætti eftir löndum. Það skiptir líka máli hversu margir ráðherrar fást við málaflokkana o.s.frv.

Ég vil nota síðustu sekúndurnar í þessu andsvari til að vekja máls á því, virðulegi forseti, að það er svo augljóst þegar menn skoða þetta mál að enn er töluverð óvissa og það þarf að fara fram umræða um þann þátt málsins sem snýr að eftirliti með fjármálamörkuðum. Ég hefði haldið, virðulegi forseti, að við á Alþingi Íslendinga teldum það einnar messu virði að ræða það.

Ég frábið mér það, virðulegi forseti, að hér sé æpt um leið og menn fara að ræða þessi mál af einhverri alvöru: Málþóf. (Forseti hringir.) Ég í það minnsta hef verið að færa fram rök fyrir því sem ég hef áhyggjur af varðandi þetta fyrirkomulag. Enginn hv. þingmanna stjórnarliðsins hefur verið hér við umræðuna, (Forseti hringir.) ekki nokkur þeirra. Þess vegna hlýt ég að mótmæla þeim (Forseti hringir.) upphrópunum að hér sé um málþóf að ræða (Forseti hringir.) og ég hvet menn til að taka þátt í umræðunni.