150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[13:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum farið í heilmikla uppbyggingu undanfarin ár en það sem er jákvætt eins og hlutirnir hafa þróast þegar kemur að þessari uppbyggingu er skýrari skilgreining og samspil Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða annars vegar og landsáætlunar hins vegar. Áður fyrr vorum við líka með svæði í eigu ríkisins í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða þannig að við færðum eiginlega fjármuni úr einum vasa ríkisins í þann næsta. Umhverfisstofnun tók til að mynda töluverðan hluta, enda var uppbygging þar mjög brýn. Þá fórum við í að smíða landsáætlunina. Svo var hún til og þá þurfti að fara í að ná inn í hana einhverju fjármagni og við höfum síðan aukið við það.

Hv. þingmaður nefndi ekki sérstaklega svæðin en mig grunar að það séu helst svæði þar sem landsáætlunin hefur það hlutverk að byggja upp vegna þess að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er samkeppnissjóður sem er fyrir svæði í eigu sveitarfélaga. Vissulega eru sumir þessara staða í eigu sveitarfélaga en aðrir eru í eigu einstaklinga. Allir geta sótt um sem undir það falla og svo úthlutar sjálfstæð stjórn í samræmi við stigagjöf. Það er samspil sem mér hefur fundist við hafa farið í rétta átt með en vissulega kann að vera að þá þurfi enn frekari fjármuni, til að mynda í landsáætlun eða einstaka staði.

Svo erum við líka að fara inn í mögulega umræðu um frekari stýringartæki, hvernig við getum stýrt betur inn á þessa staði. Það getur verið mismunandi eftir árstíðum vegna þess að jarðvegur er misviðkvæmur og þar fram eftir götunum. Þegar kemur að tengingu svæða eigum við enn verk að vinna, bæði hvað varðar frekari dreifingu, að uppbyggingin sé þannig sem og seglar og þjónusta. Áfangastaðaáætlanirnar hafa þó breytt miklu og nú skiptir líka máli að sveitarfélögin taki mið af þeim í áætlunum sínum.