Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:48]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þau sjónarmið sem koma fram í spurningum og vangaveltum hv. þingmanns séu þess eðlis að það sé full ástæða til að fjalla um það sérstaklega í nefndinni. En ég vil fullvissa hv. þingmann um að það ákvæði hér sem fjallar sérstaklega um nýliðun byggir ekki síst á umsögnum til Alþingis við fyrra frumvarp og þeirri umfjöllun sem þar var. Það hefur komið fram að nýliðun hingað til hefur ekki verið mikil þrátt fyrir að kostnaður í núverandi kerfi sé ekki mikill ef menn hafa áhuga á því að hefja grásleppuveiðar. Með því að setja skipum aflahlutdeild í grásleppu má velta því upp að aukin hagkvæmni næðist við veiðarnar og þar með kunni að vera mikilvægt í ljósi þessa að heimilt sé að draga 5,3% frá heildarafla til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti.

Af því að hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort þetta mál snúist um eitthvað annað eða um einhvers konar aðdraganda að breytingum á strandveiðikerfinu þá vil ég fullvissa hv. þingmann um að þetta þingmál hér fjallar bara um það sem í því stendur en ekki um önnur sjónarmið eða önnur álitamál. Raunar er sérstaklega fjallað um strandveiðar í umfjöllun um Auðlindina okkar, stóra stefnumótunarverkefnið sem er í gangi, og í skoðanakönnun sem birt var nú á dögunum kom fram að samfélagið allt, þjóðin, er sammála okkur, mér og hv. þingmanni, um það að strandveiðikerfið beri að efla.