151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn og ég veit að hann er mikill stuðningsmaður þessa máls. Ég fagna sérstaklega áherslu hans með fyrirspurnum varðandi mötuneytin og aðra þætti. Mig langar samt að spyrja hv. þingmann, sem nefndi ítök hagsmunahópa og nefndi sveitarfélögin: Skynjar hann mikla andstöðu við þetta mál? Ég er alveg sammála hv. þingmanni, þó að ég hafi sagt að þetta sé mál framtíðarinnar, við skulum að sjálfsögðu gera þetta að máli samtímans og tek undir það sem hv. þingmaður segir að við ættum að vera löngu búin að taka þessi skref. Þetta tikkar í öll jákvæð box og ekki á kostnað eins eða neins, takið eftir því. En ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi orðið var við einhverja tregðu til að styðja svona mál, til að færa okkur meira í þessa átt. Hafa íslenskir bændur eitthvað að óttast? Ég held ekki. Hefur hv. þingmaður orðið var við einhverja andstöðu eða skynjað andstöðu hjá einstökum stofnunum eða skólum eða sveitarfélögum? Það kæmi mér a.m.k. á óvart en það væri fróðlegt að vita af andstöðu ef hún er einhvers staðar.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er kynslóðarmál. Unga kynslóðin er talsvert jákvæðari fyrir svona aðgerðum heldur en sú eldri, það er kannski bara eðlilegt. Það er ákveðin íhaldssemi sem er fólgin í okkur öllum þegar við eldumst. En unga fólkið og börnin okkar og unglingarnir og ungt fólk er að kalla eftir þessu, eins og hv. þingmaður gat sérstaklega um, og þá ber okkur að hlusta á það og þá ber okkur að nota þau tækifæri sem við höfum þó hér, hvort sem það er búvörusamningur eða niðurgreiddur raforkukostnaður eða flutningskostnaður eða, eins og hv. þingmaður gat um, innkaup í mötuneyti. Hugsið ykkur, þetta þyrfti ekki að vera flóknara en það. Hv. þingmaður var með áhugaverðar tölur um það hve miklu hið opinbera ver í fæðiskaup. Það er skref sem við getum tekið tiltölulega fljótt að mínu mati.