Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil nú kannski aðeins koma inn á fjarskiptastrengina af því að við höfum rætt þá mjög mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það var árið 2019 sem ríkið eignaðist Farice að fullu sem ég held að hafi verið mjög mikilvægt skref. Við lítum á þessa strengi sem mjög mikilvæga innviði, ekki bara vegna þjóðaröryggis heldur líka hreinlega vegna þess að öll atvinnusköpun og verðmætasköpun reiðir sig í æ meira mæli á öflugt fjarskiptasamband við heiminn. Breytingin sem verður með þessum nýja sæstreng, Írisi, til Írlands er ótrúleg, bæði hvað varðar fjarskiptaöryggi sem og einfaldlega fjölgun tækifæra fyrir innlenda atvinnu- og verðmætasköpun. Kannski veltir hinn almenni borgari þessu ekki mikið fyrir sér en þetta er alveg ótrúleg breyting sem ég held að eigi eftir að dæmast góð í ljósi sögunnar. Þetta eru þessir mikilvægu innviðir sem við höfum verið að huga að. Sama má segja um aðra mikilvæga innviði eins og Auðkenni, sem er nú í eigu ríkisins og eins jók ríkið hlut sinn í Neyðarlínunni. Við erum að horfa á það hvar hlutverk ríkisins er og ef það er ekki þarna, hvar þá?

Vegna þess að hv. þingmaður nefndi hér innrásina í Úkraínu þá vil auðvitað bara taka undir með honum um að hún hefur líka sýnt fram á hvernig innviðir eru nýttir í stríði. Það sem er að gerast núna í Úkraínu er að verið er að byggja upp raforkukerfi sem er dreifstýrt til þess að koma í veg fyrir að unnt sé í raun og veru að taka kerfið úr sambandi með tiltölulega hnitmiðuðum árásum. Það er frekar verið að horfa til þess að kerfið sé dreifstýrt til að geta tryggt þessa innviði um land allt.

Varaflugvallagjaldið, ég held að hv. þingmaður viti nú alveg svarið við spurningunni. Við erum bæði áhugafólk um þetta gjald og áhugafólk um uppbyggingu flugvallakerfisins hringinn í kringum landið. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt almannavarnamál en þetta er líka mikilvægt lífsgæðamál fyrir landsmenn alla. Þótt þetta gjald sé tiltölulega lágt á hvern flugmiða þá munar auðvitað um öll svona gjöld, við skulum ekki gera lítið úr því, og það mun skila sér í því að við munum horfa á allt aðra mynd þegar kemur að viðhaldi komandi ára á þessu mikilvæga kerfi.