Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

lax- og silungsveiði.

957. mál
[21:52]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1494, sem er mál nr. 957, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði (hnúðlax). Frumvarpið er samið í matvælaráðuneytinu en með því eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.

Með frumvarpinu er áformað að lögfesta tímabundið ákvæði til bráðabirgða til að bregðast við hnúðlaxi sem kann að koma í íslenskar ár og vötn á gildistíma ákvæðisins. Með bréfi, sem dagsett var 8. ágúst 2022, skipaði ég starfshóp til að kanna stöðu hnúðlax og koma með tillögur um aðgerðir og lagabreytingar. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum frá matvælaráðuneytinu, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Landssambandi veiðifélaga og frumvarpið er unnið í samvinnu við starfshópinn.

Hnúðlax eða bleiklax er ein tegund Kyrrahafslaxa. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru við norðanvert Kyrrahaf og Norður-Íshaf. Hnúðlax var fyrst fluttur til ræktunar í ám á Kólaskaga í Rússlandi á sjötta áratugnum Hér á landi varð fyrst vart við hnúðlax 1960 en frá árinu 2015 hefur fjöldi hnúðlaxa aukist verulega og er tilvist hans og hrygning nú staðfest í mörgum ám hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun. Búast má við að stofnstærð hnúðlaxa komi til með að aukast hér á landi á komandi árum. Stofnar hnúðlaxa eru mun stærri á oddatöluári en á ári sem endar á sléttri tölu og því er viðbúið að sterkur stofn gangi upp í íslenskar ár sumarið 2023.

Líkur eru til að hnúðlax og framandi tegundir er koma í íslenskt ferskvatn geti haft neikvæð vistfræðileg áhrif á aðra stofna laxfiska í íslenskum ám. Í kjölfar fjölgunar hnúðlaxa tóku veiðifélög að sækja um leyfi til að stemma stigu við fjölda hnúðlaxa. Í ljós kom að ekki var til staðar lagaheimild til þess að veita leyfi til veiða í ádráttarnet þar sem slík veiðarfæri eru ekki leyfileg til laxveiða.

Miðað við núgildandi lög getur ráðherra ekki sett reglugerð sem heimilar notkun netalagna, fyrirdráttar eða annarra aðferða til að hefta útbreiðslu hnúðlaxa. Markmið þessa frumvarps er því að stemma stigu við útbreiðslu þessarar tilteknu laxategundar.

Með vísan til framanritaðs er lagt til að bætt verði við lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, nýju bráðabirgðaákvæði þess efnis að veiðifélögum og veiðiréttarhöfum þar sem ekki eru starfandi veiðifélög sé heimilt að veiða hnúðlax með ádráttarnetum árin 2023, 2024 og 2025. Í lagagreininni segir jafnframt:

„Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um veiðar á hnúðlaxi, m.a. um leyfisveitingar, skráningu, sýnatökur og aðra framkvæmd veiða.“

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.