145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

skattaskjól.

[14:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem sagði áðan að það væri mikilvægt að Ísland tæki forustu meðal jafningja og sýndi frumkvæði í baráttunni gegn skattaskjólum. Ég tek undir það í ljósi þess að við virðumst hafa haft ákveðna forustu í hina áttina ef marka má þann fjölda Íslendinga sem eru tengdir aflandsfélögum í skattaskjólum. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra vilji að við tökum forustu í hina áttina.

Ég tel mjög mikilvægt að sá tími sem við höfum fram að kosningum verði nýttur til að takast á við þessi mál. Breytingar hafa verið gerðar og við höfum rætt það talsvert og minnt á að hér voru auðvitað innleiddar CFC-reglur 2009 sem hafa skipt miklu máli. Það voru gerðir upplýsingaskiptasamningar. Það er hægt að stíga skref í áttina að því beinlínis að banna eignir í skattaskjólum og ég held að það sé möguleiki sem við eigum að skoða í ljósi þess að við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu um að Alþingi beiti sér fyrir því að látin verði fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum sem eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af OECD og íslenskum stjórnvöldum, þ.e. að Alþingi taki málið upp á sína arma í ljósi þess að málið hefur eiginlega borist inn á þing í gegnum þá kjörnu fulltrúa sem hafa haft tengsl við aflandsfélög, að við látum þessa rannsókn annars vegar fara fram og hins vegar að sett verði á laggirnar sérstakt rannsóknarteymi undir forustu skattrannsóknarstjóra með aðkomu ríkisskattstjóra og hugsanlega fleiri aðila til að fara yfir umfang málsins. Það sem ég held að skipti verulegu máli hér, herra forseti, er að fá allar upplýsingar upp á borðið. Við vitum að sá leki sem nú hefur verið í fjölmiðlum tengist einni lögfræðistofu og einum banka og vitum í sjálfu sér að umfangið gæti verið meira og að það gæti verið að við höfum bara séð toppinn á ísjakanum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála okkur (Forseti hringir.) um mikilvægi slíkrar rannsóknar og hvort hann sé reiðubúinn að skoða það að við ljúkum afgreiðslu slíks máls á þinginu.